Menning í mars hefur það að markmiði að efla menningarstarf í bænum, gera það sýnilegra og styðja þau sem að því standa við að kynna sig.
Kvennakórinn Stöllur úr Mosfellsbæ og Kvennakórinn Sóldís úr Skagafirði verða með sameiginlega tónleika föstudagskvöldið 1. mars. Á dagskrá verða aðallega lög eftir Magnús Eiríksson. Staðsetning verður auglýst þegar nær dregur.
Miðvikudaginn 6. mars mun söngdeild Listaskóla Mosfellsbæjar halda tvenna tónleika í Bæjarleikhúsi Mosfellsbæjar. Þar munu nemendur söngdeildar flytja tónlist frá fimmta og sjötta áratugnum. Tónleikarnir eru kl. 16 og kl. 18. Meðleikari er Bjarmi Hreinsson.
Meðal menningarviðburða sem í boði verða í mars er Menningarferð í Hlégarði 8. mars. Þá mun meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu og Hlégarður blása til tónleikagleði þar sem fram koma mosfellsku söngkonurnar GDRN, Stefanía Svavars, Greta Salome og Auður Linda. Í lok kvölds stígur leynigestur á svið.
Endurfundir við Kristján frá Djúpalæk eru á dagskrá þann 10. mars í Hlégarði. Um er að ræða tónlistar- og sögustund með hljómsveitinni Djúpalæk, þar sem tónum og tali verður beint að textagerð Kristjáns frá Djúpalæk við íslensk dans- og dægurlög. Hljómsveitina Djúpalæk skipa Halldór Gunnarsson sem leikur á harmonikku, píanó og munnhörpu, þau Íris Jónsdóttir, söngkona, Björgvin Gíslason gítarleikari, Haraldur Þorsteinsson bassaleikari og Sigurður Reynisson trommuleikari.
Fimmtudaginn 14. mars er komið að Ferðabók Gísla Einarssonar í Hlégarði. Gísli hefur undanfarinn aldarfjórðung ferðast fram og aftur um landið, hring eftir hring og aftur til baka og stúderað landshætti og líf landans með það að markmiði að taka upp þráðinn þar sem Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson skildu við í Ferðabók sinni. Útkoman er bráðfyndin og óhætt að lofa skemmtilegri kvöldstund.
Sögukvöld í Hlégarði mæltist vel fyrir í fyrra og mættu um 200 gestir á þann viðburð. Umfjöllunarefnið var heita vatnið í Mosfellssveit enda er saga jarðhitanotkunar í sveitarfélaginu athyglisverð, bæði hvað varðar húshitun, ylrækt og sundiðkun. Þessi viðburður var unninn í samvinnu við Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar og mikil ánægja var með kvöldið. Nú stendur til að endurtaka leikinn þann 21. mars í Hlégarði og beina athyglinni að þessu sinni að hernámsárunum í Mosfellsbæ.
Fleiri viðburðir undir hatti Menningar í mars verða kynntir á viðburðadagatali Mosfellsbæjar og á samfélagsmiðlum bæjarins. Þau sem hafa áhuga á að bjóða upp á menningarviðburð í mars eru hvattir að skrá viðburðinn á mos.is/menningimars.
Mosfellingar eru hvattir bæði til að bjóða upp á menningarviðburði í mars og einnig til að mæta vel á viðburðina og njóta þeirrar menningar sem blómstrar í bænum.
Skoða viðburðadagatal:
Tengt efni
Breytt tímasetning á áramótabrennu
Tendrun jólatrés á Miðbæjartorgi vel sótt
Um árabil hefur tendrun ljósa á jólatrénu á Miðbæjartorgi markað upphaf jólahalds í Mosfellsbæ.
Vel heppnað Bókmenntahlaðborð