Fjórmenningarnir sem hlaupið hafa hringinn í kringum landið til styrktar krabbameinssjúkum börnum ljúka hringnum í dag.
Þau munu hlaupa í gegnum Mosfellsbæ kl. 12:45 og eru Mosfellingar allir hvattir til að mæta og hvetja þau áfram síðasta spölinn. Þau munu stoppa í 15 mínútur á Miðbæjartorgi, kl. 12:45-13:00 þar sem tekið verður vel á móti þeim.
Síðasti leggur hlaupsins er á morgun og leggja hlaupararnir fjórir af stað úr Hvalfjarðarbotni kl. 8:20. Þau verða við Esjurætur um kl. 12:15 og eru hlauparar hvattir til að hlaupa með þeim í gegnum Mosfellsbæ. Þau hlaupa Háholt og Bjarkarholt í gegnum miðbæinn og verða á Miðbæjartorgi um kl. 12:45.
Gert er ráð fyrir að þau endi á Valsvellinum kl. 15:00.
Hlaupararnir eru tvenn hjón, Signý Gunnarsdóttir, Sveinn Benedikt Rögnvaldsson, Alma María Rögnvaldsdóttir og Guðmundur Guðnason. Í janúar 2010 greindist þriggja ára sonur Sveins og Signýjar með hvítblæði og hefur hann gengið í gegnum strembna lyfjameðferð. Eftir margra mánaða raunir er hann kominn á beinu brautina og er nú í töflumeðferð þar til haustið 2012. Hann er frísklegur í dag og varla hægt að merkja á honum að hann hafi gengið í gegnum gríðarlega þrautargöngu.
Í ágúst 2010 tóku Sveinn og Signý, Alma María systir Sveins og Guðmundur maður hennar ákvörðun um að hlaupa hringinn í kringum landið fyrir Styrkarfélag krabbameinssjúkra barna og fá þannig tækifæri á að skila til baka til félags sem hefur reynst ómetanlegur stuðningur.