Á undanförnum misserum hafa verið í gangi margháttaðar framkvæmdir í íþróttamiðstöðinni að Varmá sem allar beinast að því að gera umhverfi og aðstöðu íþróttaiðkenda og bæjarbúa sem allra best.
Í lok síðasta árs tók Afturelding í gagnið nýtt og glæsilegt skrifstofu- og fundarrými sem staðsett er á 2. hæð í millibyggingu milli fimleikahúss og salar 3. Rými sem áður hýsti skrifstofur Aftureldingar hefur nú verið endurinnréttað og hýsir nú aðstöðu fyrir starfsmenn íþróttamiðstöðvarinnar.
Norðan við íþróttamiðstöðina hafa verið reistir gámaklefar sem nýtast deildum Aftureldingar vel. Klefarnir tengjast sal 2 en nýtast einnig öllum útisvæðum til samræmis við þarfir Aftureldingar.
Að lokinni heildarskimun var framkvæmdum forgangsraðað
Um mitt síðasta ár var lokið við að skima allt húsnæði íþróttamiðstöðvarinnar að Varmá af sérfræðingum EFLU sem hluta af verkefni sem fól í sér heildarskimun á skólahúsnæði Mosfellsbæjar. Við þá skimun voru til skoðunar rakaskemmdir og áhrif þeirra á gæði alls kennsluhúsnæðis Mosfellsbæjar. Í kjölfar skimunarinnar var ráðist í framkvæmdir til þess að uppræta rakaskemmt byggingarefni í íþróttamiðstöðinni og þeim forgangsraðað í mikilvægisröð. Í fyrsta forgangi var allt kennsluhúsnæði og íverurými barna. Þannig voru íþróttasalirnir ásamt tveimur búningsklefum í fyrsta forgangi og teknir í gegn fyrst. Framkvæmdir voru einna mestar í sal 3 þar sem loft voru endurnýjuð og hljóðvist bætt. Gert er ráð fyrir að viðhalds- og endurnýjunarframkvæmdir að Varmá ljúki að mestu í ár.
Loks fengu tveir búningsklefar á svokölluðum græna gangi gagngera andlitslyftingu þar sem sett voru epoxý gólf og veggir auk nýrra skápa. Í ár verða tveir klefar til viðbótar endurnýjaður með sama hætti.
Framkvæmdir við sundlaugina
Miklar aðgerðir voru einnig á síðasta ári í sundlauginni að Varmá en þá var eldri vélbúnaði skipt út og er nú komið nýtt og fullkomnara stýrikerfi á potta laugarinnar. Saunaklefi var endurnýjaður í sundlauginni og settir var niður kaldur pottur.
Þessa dagana standa yfir endurbætur í klefum undir kjallara sundlaugar þar sem sett verður epoxí í hólf og gólf og samhliða verða klefarnir lagaðir að þörfum knattspyrnudeildarinnar.
Loks var ráðist í að bæta lýsingu við frjálsíþróttavöllinn í vetur þannig að þeir sem kjósa að hreyfa sig þar geta gert það á upphitaðri hlaupabraut.
Samráðsvettvangur Mosfellsbæjar og Aftureldingar
Samráðsvettvangur Mosfellsbæjar og Aftureldingar var settur á laggirnar árið 2018 í þeim tilgangi að skapa formlegan vettvang fyrir uppbyggingu og nýtingu Aftureldingar á aðstöðu að íþróttamiðstöðinni að Varmá. Á afmælisárinu 2019 þegar félagið átti 110 ára afmæli tók bæjarstjórn Mosfellsbæjar ákvörðun um að gefa félaginu vinnu við framtíðarskipulag svæðisins í afmælisgjöf.
Í framhaldinu var samráðsvettvangnum falið að halda utan um þá vinnu. Verkfræðistofan EFLA hefur á undanförnum misserum unnið að mótun framtíðarskipulags íþróttasvæðisins. Skýrsla EFLU liggur nú fyrir ásamt þarfagreiningu næstu ára og hefur verið vísað til bæjarráðs Mosfellsbæjar og til aðalstjórnar Aftureldingar til umfjöllunar.