Í haust var ákveðið að efna til þróunarverkefnis í 4. bekkjum grunnskóla Mosfellsbæjar en sams konar verkefni hófst í Hafnarfirði haustið 2010 og hlaut nafnið Litla upplestrarkeppnin. Hugmyndin vaknaði þegar Stóra upplestrarkeppnin varð 15 ára og þótti tímabært að færa út kvíarnar og byggja á markmiðum Stóru upplestrarkeppninnar en þau eru að flytja móðurmálið sjálfum sér og öðrum til ánægju og hafa vandvirkni og virðingu að leiðarljósi.
Litla upplestrarkeppnin hófst formlega 16. nóvember, á degi íslenskrar tungu, og stendur fram í apríl en þá lýkur verkefninu með sérstakri lokahátíð eða samverustund. Nú í apríl og maí eru haldnar lokahátíðir í skólunum og þar munu allir nemendur leggja sitt af mörkum. Hátíðin er í formi samveru með foreldrum og kennurum og allir nemendur fá viðurkenningarskjal fyrir þátttökuna. Hver og einn skóli útfærir sína hátíð.