Foreldrum og forráðamönnum í 4. bekk Lágafellsskóla var boðið að koma í skólann og hlusta á nemendur 4. bekkjar flytja ljóð og sögur á lokahátíð Litlu upplestrarkeppninnar.
Allir nemendur hafa lagt sitt af mörkum og æft sig í upplestri undir stjórn umsjónarkennara sinna frá því að keppnin hófst formlega á degi íslenskrar tungu 16. nóvember 2014.
Lokahátíðin var í formi samveru með foreldum, kennurum og öðrum nemendum skólans þar sem nemendur í 4. bekk sungu, lásu ljóð og sögur og spiluðu á hljóðfæri.
Keppnin er eins konar undanfari Stóru upplestrarkeppninnar sem haldin er í 7. bekk um land allt. Að Litlu upplestrarkeppninni lokinni standa allir eftir sem sigurvegarar og fá afhent viðurkenningarskjal frá Skólaskrifstofu Mosfellsbæjar.
Í ár heppnaðist Litla upplestrarkeppnin einstaklega vel og er skólinn stoltur af þessum flottu og hæfileikaríku nemendum sínum.