Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri afhenti Listaskólanum formlega nýjan flygil að gjöf frá Mosfellsbæ á fyrstu tónleikum hausttónleikadaga skólans sem fóru fram 15. – 17. október í félagsheimilinu Hlégarði.
Flygillinn er af gerðinni Yamaha S3X–PE Premium Grand og hefur Listaskólinn lánað Hlégarði hljóðfærið á meðan eldri flygill sem þar hefur verið, 50 ára gamall Bösendorfer konsertflygill, verður tekinn í gegn og lagfærður. Reiknað er með að sú framkvæmd muni taka 1-3 ár.
Um svokallaðan S3 seríu flygil er að ræða og er hann framleiddur af handverskmönnum Yamaha í Kakegawa í Japan. Sú sería var þróuð út frá Yamaha CFX konsertflyglinum sem er flaggskip Yamaha og eitt af fremstu tónleikahússhljóðfærum í heiminum. Þessi tenging gefur flyglinum hljóm sem nálgast gæði konsertflygils og setur flygilinn því skör hærra en flesta aðrir flygla af sambærilegri stærð.
S3 flyglar eru þekktir fyrir djúpan ríkulegan hljóm og jafnvægi milli bjartari og mýkri tóna. Hljómborðið er lofað fyrir góða ásláttarnæmni og gerir píanóleikurum kleift að tjá sig með meiri nákvæmni í túlkun og tónstyrk. Byggingarefni flygilsins er hágæða evrópskt greni, hannað til að standast álag og halda lögun og gefur hljómbotninum sérstaka eiginleika þegar kemur að tónendurkasti.
Tengt efni
Skólahljómsveit Mosfellsbæjar fagnaði 60 ára afmæli
Skólahljómsveit Mosfellsbæjar fagnar 60 ára afmæli
Þriðjudaginn 28. maí fagnar skólahljómsveit Mosfellsbæjar 60 ára starfsafmæli kl.18:00 í félagsheimilinu Hlégarði.
Dagur Listaskólans 2. mars 2024
Dagur Listaskólans er laugardaginn 2. mars og er opið hús hjá tónlistardeild, Skólahljómsveit og Leikfélagi Mosfellssveitar.