Lionsklúbburinn Úa afhenti á dögunum spjaldtölvur til grunnskólanna í Mosfellsbæ.
Þær eru einkum ætlaðar til notkunar í lestri fyrir börn með sérþarfir og sértæka lestrarörðugleika.
Þetta er liður í lestrarátaki klúbbsins og á vinkvennakvöldi sem haldið var í haust var ákveðið að hluti ágóðans færi í þetta verkefni. Lestrarátak Lions er 10 ára alþjóðlegt verkefni sem hófst á síðasta starfsári. Lionshreyfingin um allan heim mun hvetja til lestrar og vinna gegn ólæsi. Eitt af verkefnunum er að afhenda öllum nemendum í 5. bekk bókamerki sem er með tilvitnunum eftir Þórarin Eldjárn. Síðan stendur til að gefa öllum sex ára börnum á Íslandi bók haustin 2015 og 2016 og er það gert í samvinnu með IBBY á Íslandi sem eru frjáls félagasamtök áhugamanna um barnabókmenntir.
Skólastjórarnir Þrúður Hjelm, Jóhanna Magnúsdóttir og Þórhildur Elfarsdóttir ásamt Svöfu Harðardóttur formanni Lionsklúbbsins Úu.