Veturinn 2014-2015 var leikskólinn Hlíð einn af sex íslenskum leikskólum sem tók þátt í tilraunavinnu með Vináttuverkefni Barnaheilla.
Verkefnið kom til Íslands frá Danmörku en það byggir á snemmtækri íhlutun gegn einelti í leikskólum svo að draga megi úr því í yngri bekkjum grunnskóla. Verkefnið skerpir m.a. á gildi góðra samskipta, vináttu og virðingu fyrir öðrum. Gert er ráð fyrir að þátttakendur tileinki sér þau grunngildi sem verkefnið byggir á í allri vinnu og samskiptum í leikskólasamfélaginu.
Gildin sem verkefnið byggir á og eru samofin öllu leikskólastarfinu eru:
- Umburðarlyndi, að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og að koma fram við alla aðra af virðingu
- Virðing, að viðurkenna og virða alla í hópnum og gildi margbreytileikans, að vera öllum góður félagi
- Umhyggja, að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi, að hafa skilning á stöðu annarra
- Hugrekki, að hafa hugrekki til að bregðast við órétti og að geta sett sér mörk, að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti sem aðrir eru beittir.
Efla styrkleika hvers og eins
Verkefnið byggir á nýjustu rannsóknum á einelti og er þátttaka barnanna, starfsfólks og foreldra grundvöllur þess að vel takist til. Samkvæmt verkefninu er einelti slæmt mynstur eða samskipti sem þróast í aðstæðum og umhverfi þar sem umburðarlyndi skortir gagnvart margbreytileikanum. Alltaf skuli því skoða hópinn sem heild, en ekki einblína á að einhver sé slæmur og annar góður, ekki á geranda og þolanda.
Verkefnið byggist því á að efla styrkleika hvers einstaklings og vinna með hópinn í heild, um samskipti, samlíðan, umhyggju, vináttu og vellíðan. Vinátta á því að stuðla að almennri menntun leikskólabarna í hæfni þeirra til að takast á við áskoranir daglegs lífs og í samskiptum við aðra.
Verkefnið byggir á að einelti sé á ábyrgð hinna fullorðnu. Hinn fullorðni sem umgengst börnin daglega er sá sem hefur tækifæri til að fyrirbyggja eineltið og ber skylda til þess.
Vinátta, umhyggja og hugrekki
Bangsinn Blær er táknmynd vináttunnar í Vináttuverkefninu. Hann minnir börnin á að vera góður félagi, huggar þau þegar þau eru sorgmædd og hann hefur í heiðri gildin sem byggt er á. Blær er vinsæll hjá börnunum og hjálpar til við að stuðla að góðum skólabrag og að gæta hvers annars vel. Litlir bangsar sem hvert og eitt barn á tákna samfélag Vináttu.
Í leiðbeiningahefti ætlað kennurum er á fræðilegan hátt fjallað um einelti og fjölda hugmynda að verkefnavinnu til að vinna með í leikskólanum. Nuddhefti, samræðuspjöld, sögubók þar sem fjallað er af kímni, skilningi og jákvæðni um erfiðar aðstæður sem upp geta komið í leikskólanum ásamt tónlistardisk og útikennsluhefti fylgja með verkefninu.
Með því að hafa fjölbreytileika verkefna mikinn geta öll börnin sýnt styrkleika sína og lagt sitt af mörkum til að vera góður félagi og sýna vináttu, umhyggju og hugrekki. Reynslan sýnir að börnunum líkar vel við efnið sem fylgir og eiga auðveldara með að setja sig í spor annarra. Í Hlíð er verkefnið unnið með öllum 3-5 ára börnum.
Tengt efni
Breytingar á umsýslukerfi og vefsíðum leikskólanna
Dagur leikskólans 6. febrúar
Dagur leikskólans er í dag þriðjudaginn 6. febrúar.
Skráningardagar í leikskólum Mosfellsbæjar
Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti á fundi sínum fimmtudaginn 15. júní tillögu fræðslunefndar um svokallaða skráningardaga í leikskólum frá og með næsta hausti.