Það verður jólalegt í umferðinni næstu vikurnar, því strætisvagnar Strætó bs. munu skarta skrautlegum jólamyndum að utan og innan.
Óhætt er að segja að listamennirnir séu ungir og upprennandi, því það voru leikskólabörn hvaðanæva að af höfuðborgarsvæðinu sem hönnuðu skreytingarnar. Með þessu verkefni vill Strætó leggja sitt af mörkum til að færa borgina í hátíðarbúning um leið og ungviðið er hvatt til að virkja sköpunargleðina.
Verkefnið hófst í byrjun nóvember, þegar bréf var sent til allra leikskóla á höfuðborgarsvæðinu og leikskólakennarar hvattir til fá börnin til að teikna jólamyndir til að skreyta strætisvagnana um jólin. Mjög vel var tekið í erindið og alls bárust myndir frá 58 leikskólum. Unnið var úr myndunum þannig að leikskólarnir sem sendu inn „eignuðust“ einn strætisvagn hver, þ.e. myndir frá hverjum leikskóla skreyta hliðar og bakhluta á einum strætisvagni. Að auki er inni í vagninum veggspjald með myndum og upplýsingum um leikskólann sem skreytti vagninn. Jafnframt munu allar myndirnar sem bárust verða aðgengilegar á vef Strætó.
Verkefninu var hleypt af stokkunum í dag þegar jólasveinar heimsóttu leikskólann Bakkaborg á strætisvagninum sem börnin á Bakkaborg skreyttu. Spennan var mikil meðal barnanna, sem tóku strætisvagninum „sínum“ og jólasveinunum opnum örmum þegar vagninn renndi í hlað. Jólastemmningin náði svo hámarki þegar börnunum var boðið í stutt ferðalag með vagninum þar sem að sjálfsögðu voru sungin jólalög með sveinunum.
„Þetta hefur án efa verið eitt skemmtilegasta verkefnið sem við höfum unnið að, því börnin eru svo hugmyndarík og hafa greinilega haft gaman af því að teikna jólamyndir fyrir Strætó. Ég vona að bæjarbúar muni hafa jafn gaman af þessu og við og komist í hátíðarskap í umferðinni við að sjá þessar líflegu myndir barnanna okkar fram að jólum,“ segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs.
Þetta verður ekki það eina sem Strætó bs. gerir nú í aðdraganda jólanna til að lífga upp á bæjarlífið, því listafólki af öllu tagi hefur verið boðið að troða upp í strætó síðustu dagana fyrir jól. Farþegar Strætó bs. geta því átt von á að heyra lifandi tónlist, ljóðalestur eða verða vitni að einhverjum öðrum listviðburði á ferðum sínum í strætó næstu dagana.