Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, afhenti fjórum stúlkum úr Mosfellsbæ Laxnessfjöðrina sem er viðurkenning sem Samtök móðurmálskennara veita fyrir ritlist og þykir mikill heiður að hljóta hana.
Þær Margrét Dís Stefánsdóttir og Kristjana Björnsdóttir úr Varmárskóla ásamt Andreu Dagbjört Pálsdóttur og Diljá Guðmundsdóttur úr Lágafellsskóla hlutu viðurkenninguna í ár fyrir verk sín sem þær sömdu í tengslum við ritunarátak innan skólanna.
Laxnessfjöðrin er viðurkenning sem ætlað er að örva æskufólk til að leggja rækt við íslenska tungu. Hún var veitt í fyrsta sinn á Gljúfrasteini árið 2005 og féll hún þá í skaut Mjólkursamsölunnar, fyrir öflugt og áhrifaríkt starf að þessu markmiði. MS hefur unnið mikið starf til að efla áhuga íslenskrar æsku á móðurmálinu og ræktun þess og lengi stutt við íslenska tungu, meðal annars haldið samkeppni meðal ungmenna undir nafninu “Fernuflug”; árin 2001 og 2004. Sá afraksturinn birtist á mjólkurfernum.
Mynd: Handhafar verðlaunanna, Kristjana, Margrét, Andrea og Diljá, ásamt Vigdísi Finnbogadóttur.
Ljósmyndari: Jóhannes Reykdal.