Garðyrkjudeild Mosfellsbæjar hyggst breyta verklagi við grasslátt í sumar og færa sig í átt að sjálfbærari og umhverfisvænni umhirðu grænna svæða. Gras fær að vaxa hærra á mörgum svæðum og blóm á engjum fá að njóta sín. Þetta er ekki gert af vanrækslu, heldur er þetta meðvituð og umhverfisvæn stefna sem styður við náttúrlega fegurð bæjarins.
Látum það vaxa
Síðustu ár hefur garðyrkjudeild bæjarins verið að sá Hvítsmára á stór græn svæði, en Hvítsmári er harðgerð planta og vex vel án mikillar umhirðu. Með því hefur tekist að draga verulega úr slætti á ýmsum svæðum og skapast hefur grundvöllur fyrir blómleg engi í stað hefðbundins grass. Verkefnið er liður í stærri vitundarvakningu um mikilvægi grænna svæða í þéttbýli og breyttrar nálgunar í umhverfismálum. Með því að draga úr óþarfa slætti og leyfa náttúrulegum gróðri að blómstra er ekki aðeins verið að vernda dýralíf, heldur einnig að færa náttúrulegt umhverfi nær bæjarbúum.
Garðyrkjudeildin vill minna á blómaengi sem sett hefur verið niður sem prufureitur undir nafninu „Látum það vaxa“ fyrir neðan Tröllateig. Þar má finna skilti sem útskýrir verkefnið þar sem um 30 blómategundum var sáð með þeim tilgangi að leyfa náttúrunni að njóta sín. Þær blómategundir sem um ræðir eru meðal annars; garðkornblóm, vallhumall, gulmaðra, freyjubrá og baldursbrá. Með því að leyfa slíkum svæðum að vaxa færist náttúran nær íbúum og dýralífið fær aukið svigrúm í þéttbýli. Þetta framtak styður við grænni framtíð Mosfellsbæjar.