Mosfellingurinn Kristján Þór Einarsson, afrekskylfingur, lék afar vel á Smáþjóðaleikunum sem fram fóru 1. – 6. júní.
Kristján lék hringina fjóra á alls 6 höggum undir pari og sigraði mótið með 4 höggum. Kristján setti glæsilegt vallarmet á þriðja hring þegar hann lék á 64 höggum eða 7 höggum undir pari.
Íslenska karlaliðið sigraði í liðakeppninni með miklum yfirburðum eða 31 höggi. Lið Íslands skipuðu ásamt Kristjáni þeir Haraldur Franklín Magnús og Andri Þór Björnsson.
Kvennalið Íslands hafði einnig mikla yfirburði í mótinu og sigraði með 33 höggum í liðakeppninni. Guðrún Brá Björgvinsdóttir sigraði einstaklingskeppni kvenna með 3 höggum.
Óskum Kristjáni Þór og öðrum liðsmönnum íslensku liðanna innilega til hamingju með sigurinn.
Íslendingar á toppi verðlaunatöflunnar á ný
Íslendingar eru efstir á verðlaunatöflunni eftir keppni á Smáþjóðaleikunum 2015. Ísland tryggði sér 115 verðlaun, þar af 38 gull, 46 silfur og 31 brons.Íslendingar voru sigursælir á heimavelli og settu mörg Íslandsmet og mótsmet.
Smáþjóðaleikarnir 2015
Nýafstaðnir Smáþjóðaleikar 2015 eru þeir sextándu í sögu leikanna en þeir fyrstu voru árið 1985 í San Marínó. Að þessu sinni fóru þeir fram á Íslandi eins og áður sagði dagana 1. – 6. júní. Keppt var í ellefu íþróttagreinum. Þær voru frjálsíþróttir, sund, júdó, skotíþróttir, tennis, borðtennis, körfuknattleikur, blak, strandblak, áhaldafimleikar og golf.
Fimleikar og golf eru valgreinar á leikunum 2015, en sú þjóð sem heldur leikana getur valið tvær keppnisgreinar. Það er í fyrsta skipti sem keppt var í golfi á Smáþjóðaleikum.
Þátttökurétt á Smáþjóðaleikunum eiga þjóðir með íbúatölu undir einni milljón. Þessar þjóðir eru: Andorra, Ísland, Kýpur, Liechtenstein, Lúxemborg, Malta, Mónakó og San Marínó, og hafa þær verið með allt frá byrjun.Svartfjallaland tók þátt á leikunum árið 2011 í fyrsta sinn og eru því þátttökuþjóðirnar nú níu talsins.