70 ára afmælis- og vortónleikar Karlakórsins Stefnis standa yfir þrjá daga í röð og voru fyrstu tónleikarnir haldnir í Guðríðarkirkju í Grafarholti í gærkvöldi.
Efnisskrá tónleikanna rekur sögu kórsins og voru flutt lög sem Stefnir hefur haft á söngskrá sinni í gegnum tíðina.
Kristinn Sigmundsson óperusöngvari var einsöngvari með kórnum og hreif með sér gesti kvöldsins, flutti m.a. annars Old man river með þvílíkum glæsibrag að seint gleymist, ekki síst fyrir frábæran bakstuðning kórsins.
Undir styrkri stjórn Gunnars Ben og við flottan undirleik Judith Þorbergsson sýndi kórinn mikil tilþrif, sveiflaðist í gegnum dagskrána frá þéttum hefðbundnum karlakórslögum eins og Brennið þið vitar yfir í mildan flutning á rökkur- og kvöldljóðum. Stefnir hefur sjaldan sýnt á sér flottari hliðar.
Þórunn Lárusdóttir kom einnig við sögu, dóttir Lárusar heitins Sveinssonar, sem var stjórnandi Stefnis í fjölda ára. Hún söng ljúflega og brá fyrir sig trompetinu sínu af mikilli snilld. Kórinn endaði á að frumflytja tvö verk eftir Hildigunni Rúnarsdóttur sem samin voru sérstaklega fyrir Stefni í tilefni þessara tímamóta.
Tónleikarnir í heild sinni voru sérstaklega ánægjulegir og í allt voru flutt 4 aukalög. Mosfellsbær getur verið stoltur af því að Karlakórinn Stefnir skuli eiga sögu og vera hluti af menningu bæjarfélagsins og óhætt að hvetja bæjarbúa til að mæta í kvöld og á morgun kl. 20:00. Miða er hægt að kaupa við innganginn.
Tengt efni
Breytt tímasetning á áramótabrennu
Tendrun jólatrés á Miðbæjartorgi vel sótt
Um árabil hefur tendrun ljósa á jólatrénu á Miðbæjartorgi markað upphaf jólahalds í Mosfellsbæ.
Vel heppnað Bókmenntahlaðborð