Kalka sorpeyðingarstöð fyrir hönd sveitarfélaganna á Suðurnesjum, og SORPA hafa ákveðið að standa saman að því að samræma sorphirðukerfi á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu.
Þetta þýðir að sama flokkunarkerfi verður við öll heimili í sveitarfélögunum ellefu á starfssvæðum Kölku og SORPU. Með þessu verður flokkunarkerfi ríflega 70% landsmanna samræmt.
Nýja fjögurra flokka sorphirðukerfið, þar sem matvælum, plasti, pappír, og blönduðum úrgangi verður safnað sérstaklega, byggir á lögum um hringrásarhagkerfi og tóku gildi í upphafi þessa árs. Stefnt er að því að hefja innleiðingu á nýja kerfinu í maí og að innleiðingu verði lokið í haust.
SORPA og Kalka samnýta GAJU og brennslustöðina í Helguvík
Samstarf Kölku og SORPU við ráðstöfun úrgangs hefur verið að aukast á síðustu misserum og mun aukast enn frekar á komandi árum. Félögin hafa náð saman um að allar sérsafnaðar matarleifar sem safnast á starfssvæði Kölku verði sendar til meðhöndlunar í GAJU, gas- og jarðgerðarstöð SORPU, enda óheimilt að farga sérsöfnuðum endurvinnsluefnum á borð við matarleifum með brennslu.
Félögin hafa einnig ákveðið að tilteknir úrgangsflokkar sem safnast hjá SORPU verði sendir til meðhöndlunar í brennslustöð Kölku í Helguvík.
Jón Viggó Gunnarsson er framkvæmdastjóri SORPU: „Við erum gríðarlega ánægð með þá traustyfirlýsingu sem við upplifum þetta samstarf vera. Bæði felur þetta í sér að nýtt flokkunarkerfi, sem starfsmenn allra sveitarfélaganna á starfssvæði SORPU, starfsmenn SORPU og SSH unnu í sameiningu, nýtur trausts utan höfuðborgarsvæðisins. Að sama skapi er mikill sameiginlegur ávinningur fyrir íbúa þessa svæðis að nýta þá samfélagslegu innviði sem GAJA og brennslustöðin í Helguvík eru. GAJA er í raun eina leiðin sem í boði er til að meðhöndla matarleifar á suðvesturhorninu eftir þær lagabreytingar sem tóku gildi um áramótin og brennslan í Helguvík er góð lausn á ýmsum áskorunum SORPU.“
Steinþór Þórðarson er framkvæmdastjóri Kölku: „Þetta samstarf er mikils virði fyrir okkur. Að fá að undirbúa svona viðamiklar breytingar í samstarfi við stærstu aðilana á markaðnum felur í sér mikinn ávinning fyrir okkur hér á Suðurnesjum. Við í Kölku höfum ekki mannskap í að hugsa og hanna allar útfærslur á þessu frá grunni. Það var því ótalmargt sem mælti með því að gera þetta í góðu samstarfi. Gleymum ekki að það hefur verið ákall frá íbúum að flokkun sé samræmd yfir landið allt. Það var því auðveld ákvörðun fyrir okkur að svara því kalli íbúa og vinna þétt með höfuðborgarsvæðinu að þessum breytingum. Sú staðreynd að SORPA kemur héðan í frá til með að nýta okkar innviði í Helguvík sýnir einnig fram á mikilvægi þess að aðilar í þessum geira vinni saman og njóti góðs af styrkleikum hvers annars. Þetta samstarf er svo í góðu samræmi við sameiginlega svæðisáætlun sorpsamlaganna á suðvesturhorninu sem var undirrituð í desember í fyrra.“
Upplýsingar um fjögurra flokka sorphirðukerfið:
Tengt efni
Samið um sorphirðu til næstu ára
Snjallar grenndarstöðvar í Mosfellsbæ
Á næstu vikum verða þrjár grenndarstöðvar í Mosfellsbæ gerðar snjallar.
Íbúar öflugir í frágangi eftir áramót
Miklu magni af flugeldarusli var safnað í sérstakan gám á vegum bæjarins núna um áramótin.