Jólaljósin í garðinum við Hlégarð voru tendruð í tengslum við opinn fund menningar- og lýðræðisnefndar sem haldinn var í Hlégarði 28. nóvember síðastliðinn. Þessa dagana er unnið að því að koma fallega bænum okkar í jólabúning og hluti af því er tendrun jólatrésins á Miðbæjartorgi laugardaginn 2. desember.
Skólahljómsveit Mosfellsbæjar spilar inn í Kjarna frá kl. 15:30. Dagskrá á Miðbæjartorginu hefst kl. 16:00. Barnakór Lágafellssóknar syngur, börn úr forskóladeild Listaskólans koma fram og söngkonan Stefanía Svavarsdóttir syngur. Gera má ráð fyrir að einhverjir jólasveinanna komi ofan úr Esju þennan dag til að dansa í kringum tréð með börnunum.
Eftir að dansað hefur verið í kringum jólatréð verður haldið inn í Kjarna þar sem Mosfellskórinn mun syngja lög.
Afturelding sér um sölu á heitu kakó, kaffi og vöfflum, Hamrahlíð vinna og virkni (vinnustofur Skálatúns) selur handverk og Kvenfélag Mosfellsbæjar heldur sinn árlega kökubasar.
Það er tilvalið að koma við á leiðinni heim og skoða fallegu jólaljósin í garðinum við Hlégarð.