Sannkölluð jólahátíð var á Miðbæjartorgi á laugardag þegar kveikt var á ljósum á jólatré Mosfellinga.
Börn og fullorðnir glöddust yfir því að aðventan er nú gengin í garð og skein gleðin úr hverju andliti á laugardaginn þegar kveikt var á ljósunum á jólatré Mosfellinga á Miðbæjartorgi. Fjöldi var saman kominn og voru jólalögin sungin háum rómi og dansað í kring um jólatréð.
Eftir hátíðarhöld úti á torgi færði mannfjöldinn sinn inn í hús í Kjarna þar sem áfram var glaðst. Glaðbeittir jólasveinar gáfu börnum jólaepli og einnig voru Mjallhvít og dvergarnir sjö mættir á svæðið.
Kammerkór Mosfellsbæjar söng jólalög og hátíðarstemming myndaðist. Ekki dró það úr hátíðarbragnum að vöffluilmurinn smaug um vitin enda stóð Kammerkórinn einnig fyrir sinni árlegu kaffisölu.
Tengt efni
Syndum, landsátak í sundi hefst 1. nóvember 2024
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samstarfi við Sundsamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi frá 1. – 30. nóvember 2024.
Vel sóttur fundur um Álafosskvos
Tveimur farsælum samráðsfundum lokið