Jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar 2020 hlýtur Mosfellingurinn Jewells Chambers.
Jewells er fædd og uppalin í Brooklyn í New York en flutti hingað til Íslands árið 2016. Hún er gift Gunnari Erni Ingólfssyni og búa þau saman hér í Mosfellsbæ. Jewells er verkfræðingur að mennt frá Rensselaer Polytechnic Institute og starfar sjálfstætt í dag.
Vekur athygli á kynþáttahyggju og fordómum
Jewells hefur vakið athygli á kynþáttahyggju og fordómum sem byggjast á hörundslit fólks hér á Íslandi. Hún hefur meðal annars tekið áhugaverð viðtöl við einstaklinga sem eru af erlendu bergi brotnir, þar sem upplifun af því hvernig það er að tilheyra minnihlutahópi á Íslandi er lýst. Til að mynda vakti YouTube myndband þar sem hún og Tabitha Laker deila upplifun sinni af því hvernig er að vera þeldökkur einstaklingur á Íslandi mikla athygli á meðal almennings.
Jewells er afar virk á samfélagsmiðlum (Instagram, YouTube og Facebook) þar sem hún veitir innsýn inn í líf fólks af erlendum uppruna auk þess sem hún er með podcastið All Things Iceland. Mosfellingar eru hvattir til að fylgjast með öllu því áhugaverða sem hún er að gera.
Jewells Chambers tekur við jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar 2020.
Uppbyggilegt og réttlátt samfélag fyrir alla
Mosfellsbær fagnar fjölbreytileikanum og leggur áherslu á að stuðla að uppbyggilegu og réttlátu samfélagi fyrir alla, óháð uppruna. Með viðurkenningunni vill lýðræðis- og mannréttindanefnd Mosfellsbæjar hvetja íbúa Mosfellsbæjar sem og aðra til að gera slíkt hið sama.
Gerum jafnréttismálum hátt undir höfði og verum meðvituð um að koma fram við alla af virðingu, jákvæðni og umhyggju. Jewells sýnir aðdáunarverða framsækni og framlag hennar til okkar samfélags er mjög mikilvægt.
Tengt efni
Tilnefningar til jafnréttisviðurkenningar Mosfellsbæjar 2023 – framlengdur umsóknarfrestur
Velferðarnefnd, sem fer með hlutverk jafnréttisnefndar, auglýsir eftir tilnefningum til jafnréttisviðurkenningar Mosfellsbæjar 2023.
Tilnefningar til jafnréttisviðurkenningar Mosfellsbæjar 2023
Velferðarnefnd auglýsir eftir tilnefningum til jafnréttisviðurkenningar Mosfellsbæjar 2023.
Jafnréttisdagur Mosfellsbæjar 22. september 2022
Haldið upp á daginn í Hlégarði kl. 15:00 – 17:00.