Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2011 var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í gær.
Megináherslur hennar eru að standa vörð um grunn- og velferðarþjónustu Mosfellsbæjar en jafnframt að skila hallalausum rekstri.
Gert er ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu um 14 mkr í A-hluta og 32 mkr í A- og B-hluta. Skuldir og skuldbindingar í A-hluta lækka milli ára. Veltufé frá rekstri í A-hluta er 338 mkr og í A- og B-hluta 439 mkr sem er 8,6%.
Ekki er gert ráð fyrir neinum óreglulegum tekjum, svo sem af sölu byggingarréttar. Ef um sölu lóða verður að ræða á árinu leiðir það til aukinna tekna bæjarsjóðs.
Í áætluninni er gert ráð fyrir yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga og eykur það umfang rekstrar bæjarins verulega.
Leitað til íbúa
Eftir mikla hagræðingu undanfarin tvö ár var ljóst að þær ákvarðanir sem sveitarfélagið stæði frammi fyrir væru langt frá því auðveldar. Ákvarðanirnar snúast ekki lengur um að afleiðingar þeirra megi ekki bitna á neinum – heldur að þær bitni á sem fæstum, svo krefjandi er það umhverfi sem þessi áætlun er unnin við.
Mosfellsbær leitaði til íbúa eftir leiðum til hagræðingar og var haldinn sérstakur íbúafundur um fjárhagsáætlun. Fjöldi tillaga barst sem birtar hafa verið á vef Mosfellsbæjar og nýttar voru við fjárhagsáætlunargerðina. Stór hluti þeirra tillagna sem fram komu eru þegar komnar í framkvæmd þar sem fjárhagsáætlanir síðustu tveggja ára einkenndust af mikilli hagræðingu í rekstri í kjölfar efnahagshrunsins 2008.
Á íbúafundinum kom fram eindregin ósk um að standa vörð um velferð. Fjárhagsáætlun 2011 ber þess vitni að eftir því var farið eins og kostur var. Fjárframlög til málaflokksins aukast milli ára í samræmi við aukna þörf á aðstoð og þjónustu á því sviði á meðan um talsverða hagræðingu er að ræða á flestum öðrum sviðum.
Íbúar létu jafnframt í ljós óskir um að ekki yrði hagrætt í skólamálum eða dagvistarmálum barna. Reynt var að koma til móts við þá óskir eins og frekast var unnt. Til marks um það hækkar útgjöld til málaflokksins um 2% á milli ára án tilliti til verðlagsbreytinga.
Veruleg hagræðingarkrafa hefur verið gerð á yfirstjórn sveitarfélagsins, sem og stjórnunardeildir stofnana. Starfsfólk Mosfellsbæjar tekur að sér aukinn fjölda verkefna og lagt hefur verið áhersla á enn frekara samstarf milli stofnana og deilda í því skyni að ná sem mestri hagræðingu.
Helstu áherslur í fjárhagsáætlun 2011 eru eftirfarandi:
- Að haldið verði áfram að byggja upp okkar samfélag og þjónustu þrátt fyrir erfitt árferði eftir því sem hægt er.
- Að standa vörð um skóla- og æskulýðsstarf og að forgangsraðað verði í þágu barna og velferðar.
- Að veltufé frá rekstri sé jákvætt og að afkoma bæjarins án óreglulegra tekna verði í jafnvægi.
- Að samdrætti á tekjum verði m.a. mætt með sparnaði og hagræðingu í rekstri og að sérstaklega verði hagrætt í yfirstjórn og stjórnun almennt, ásamt í eignaliðum og rekstri fasteigna.
- Að framkvæmdir hefjist við byggingu nýs framhaldsskóla í miðbæ Mosfellsbæjar og hjúkrunarheimili að Hlaðhömrum í samvinnu við ríkisvaldið.
- Að samkomulag um lækkun launa stjórnenda bæjarins um 3-7% gildi áfram að undanskildum bæjarstjóra en laun hans hafa lækkað alls um 17% skv. nýjum ráðningarsamningi.
Dæmi um aðgerðir sem nauðsynlegt verður að ráðast í eru eftirfarandi:
- Gjaldskrár hækka um 5-10%
- Útsvar hækkar úr 13,19% í 13,28%
- Álagningarstuðlar fasteignagjalda verða hækkaðir til að mæta lækkun fasteignamats
- Heimgreiðslur verða lagðar af.
- Frístundaávísanir lækka úr kr. 18.000 í kr. 15.000.
- Gjaldfrjálsum tímar í fimm ára deild fækkar úr 8 í 3.
- Samningar um fjárfestingar í íþróttamannvirkjum verða endurskoðaðir, svo og styrktarsamningar.
Tengt efni
Aukin vetraropnun kaffistofu Samhjálpar
Neyðarkallinn til styrktar björgunarsveitinni Kyndli
Mosfellsbær styrkir Björgunarsveitina Kyndil með því að kaupa Neyðarkallinn 2024.
Bókun samtala hjá velferðarsviði