Íþróttafélag okkar Mosfellinga, Afturelding, átti 110 ára afmæli þann 11. apríl síðastliðinn.
Það er aldeilis góður aldur fyrir íþróttafélag í bæjarfélagi sem er mun yngra. Afturelding hefur verið hluti af þeim lífsgæðum og þeirri upplifun sem fólk hefur af því að búa í Mosfellsbæ. Ungar fjölskyldur með börn eru í meirihluta íbúa bæjarins og öflugt íþróttafélag hefur sannarlega áhrif á ákvörðun fólks um búsetu. Það má því segja að félagið hafi átt sinn hlut í þeirri miklu fólksfjölgun sem hefur orðið í bænum okkar síðastliðin ár.
Það er mikilvægt forvarnar- og uppeldisstarf sem felst í starfsemi þeirri sem Afturelding stendur fyrir. Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag og þar kemur íþróttastarf innan bæjarins sterkt inn. Iðkendur félagsins eru um 1.500 í dag og því stór hluti bæjarbúa sem njóta þess sem félagið býður uppá. Öll viljum við sjá börnin okkar eflast og njóta sín í heilbrigðum tómstundum. Það er stefna Mosfellsbæjar að vera fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélag sem setur umhverfið í öndvegi og hefur þarfir og velferð íbúa að leiðarljósi og gegnir Ungmennafélagið Afturelding mikilvægu hlutverki hvað það varðar.
Uppbygging íþróttamannvirkja hefur verið á dagskrá í sveitafélaginu alla tíð og það er eitt af forgangsverkefnum sveitafélagsins að halda áfram að bæta aðstöðu Aftureldingar á komandi árum. Íþróttamiðstöðin að Varmá var byggð í nokkrum áföngum og á þessu ári eru 55 ár síðan elsti hluti hennar Varmárlaug var tekin í notkun. Á síðastliðnum árum hefur mikil uppbygging verið á svæðinu og má þar nefna glæsilegt fimleikahús, nýtt gervigras á gervisgrasvöllinn, nýtt fjölnota knatthús sem er í byggingu og ný gólfefni í íþróttasali að Varmá. Í sumar verður farið í meiri framkvæmdir við gervigrasvöllinn til að gera hann löglegan fyrir keppni í 1. deild og einnig verður unnið að endurbótum og viðgerðum við Tungubakkavöll.
Nýlega var stofnaður formlegur samstarfsvettvangur Aftureldingar og Mosfellsbæjar um uppbyggingu mannvirkja að Varmá. Þar kom fram þörf fyrir framtíðarskipulag fyrir svæðið. Mosfellsbær hefur því ákveðið að í tilefni 110 ára afmælis félagsins muni bærinn færa félaginu að gjöf hugmyndavinnu hönnuða að framtíðarskipulagi og uppbyggingu íþróttasvæðisins að Varmá, sem byggð verður á þarfagreiningu félagsins og framtíðarsýn Mosfellsbæjar.
Það er flott fólk sem starfar og sinnir sjálfboðastarfi hjá Aftureldingu sem gerir félagið að því sem það er. Mosfellsbær færir iðkendum, starfsmönnum, sjálfboðaliðum, stjórnarmönnum, þjálfurum og stuðningsmönnum hamingjuóskir í tilefni afmælisins. Framtíð Aftureldingar er björt með ykkar góða og uppbyggilega starfi.