Íslandsmótið í skák sem fer fram í Mosfellsbæ í annað skiptið í sögunni hófst í gær og setti Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri mótið með því að leika fyrsta leik þess fyrir Vignir Vatnar Stefánsson núverandi Íslandsmeistara á móti Aleksandr Domalchuk-Jonasson. Teflt er í íþróttamiðstöðinni Klett við golfvöllinn Hlíðarvöll.
Íslandsmótið í skák á sér langa sögu eða allt frá árinu 1913 þegar fyrsta Íslandsmótið í skák (eða Skákþing Íslendinga) eins og það hét þá var haldið í Reykjavík. Síðan þá hefur mótið farið árlega fram tveimur undantekningum. Mótið nú er haldið í Mosfellsbæ í annað skiptið í sögunni en árið 2010 fór það fram í íþróttamiðstöðinni Lágafelli.
Samkvæmt upplýsingum frá Skáksambandi Íslands eru tólf sem berjast um titilinn skákmeistari Íslands og eru þar á meðal fjöldi stórmeistara. Þá er vert að nefna að skákkonur hafa aldrei verið fleiri í efsta flokki. Olga Prudnykova, sem er úkraínskur flóttamaður og Íslandsmeistari kvenna síðustu tvö ár og Lenka Ptácníková sem er margfaldur Íslandsmeistari kvenna. Ungu mennirnir Hilmir Freyr Heimisson, Aleksandr Domalchuk-Jonasson, Dagur Ragnarsson og Bárður Örn Birkisson munu freista þess að blanda sér í toppbaráttuna.
Keppendalistinn:
- Hjörvar Steinn Grétarsson (2518), stórmeistari
- Héðinn Steingrímsson (2502), stórmeistari
- Hannes Hlífar Stefánsson (2493), stórmeistari
- Guðmundur Kjartansson (2480), stórmeistari
- Helgi Áss Grétarsson (2468), stórmeistari
- Vignir Vatnar Stefánsson (2469), stórmeistari
- Aleksandr Domalcuk-Jonasson (2368), alþjóðlegur meistari
- Hilmir Freyr Heimisson (2361), alþjóðlegur meistari
- Dagur Ragnarsson (2333), alþjóðlegur meistari
- Olga Prudnykova (2263), alþjóðlegur meistari kvenna
- Bárður Örn Birkisson (2169), kandídatameistari
- Lenka Ptácníková (2127), stórmeistari kvenna
Allar upplýsingar um mótið eru á vef Skáksambands Íslands auk þess sem hægt er að horfa á beinar útsendingar á vef Lichess.
Myndir: Alexía Guðjónsdóttir
Tengt efni
Er líða fer að jólum í Mosfellsbæ
Fjöldi viðburða verða í boði í Mosfellsbæ í aðdraganda jóla.
Syndum, landsátak í sundi hefst 1. nóvember 2024
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samstarfi við Sundsamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi frá 1. – 30. nóvember 2024.
Vel sóttur fundur um Álafosskvos