Mosfellsbær hefur skrifað undir nýjan samning við Hopp um rekstur á stöðvalausri deilileigu fyrir rafskútur í Mosfellsbæ. Hjólin koma í dag og samningurinn gildir til 31. október 2024.
Rafskútur geta komið í stað styttri ferða á bifreiðum, en samkvæmt upplýsingum frá Hopp er tæplega helmingur bílferða styttri en þrír kílómetrar. Starfsemi Hopp í Mosfellsbæ er sveitarfélaginu að kostnaðarlausu en leigan fer fram í gegnum smáforrit í snjallsíma þar sem að unnt er að sjá hvar næsta lausa rafskúta er staðsett.
Upphafsstöðvar verða við íþróttamiðstöðvar og við miðbæjartorg en notendur geta skilið við hjólin þar sem þeim hentar. Það er þó mikilvægt að skilja við hjólin með ábyrgum hætti og þannig að þau séu ekki í vegi fyrir annarri umferð.
Hopp mun kynna notendum sínum með reglubundnum hætti að rafskútum skuli leggja þannig að ekki stafi hætta eða óþægindi af og í samræmi við umferðarlög. Einnig mun Hopp upplýsa notendur um að þeir skuli ferðast á eðlilegum gönguhraða þar sem hjól eru innan um gangandi vegfarendur t.d. á gangstéttum og blönduðum stígum, í samræmi við ákvæði umferðalaga.
Þetta er annað sumarið sem Hopp er í boði í Mosfellsbæ og er það meðal annars í samræmi við þau markmið sem sett eru fram í umhverfisstefnu Mosfellsbæjar og með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Bæjaryfirvöld vilja vekja sérstaka athygli á því að samkvæmt notandaskilmálum Hopp þurfa notendur að hafa náð 18 ára aldri.