Á dögunum fékk leikskólinn Reykjakot jólakort frá nágrönnum sínum í Krókabyggð 1, 1a, 3, 3a og 5.
Ástæðan fyrir kortinu er sú að þau vilja samgleðjast leikskólanum vegna breytinga á lóðinni og þykir gaman að hafa glaða krakka í hverfinu. Þetta var dásamlegt kort sem yljaði starfsfólki leikskólans um hjartaræturnar. Nágrannarnir óskuðu eftir því að fá að koma í heimsókn í leikskólann og færa honum bókagjöf.
Mánudaginn 21. desember komu svo fulltrúar nágrannanna í heimsókn í leikskólann, Jóhanna, Jón og Maggý, og fengu kaffi og piparkökur, skoðuðu skólann og spjölluðu við leikskólastjóra og aðstoðarleikskólastjóra. Sú hugmynd kom fram að stofna vinafélag Reykjakots þar sem nágrannar, fyrrverandi nemendur og aðrir velunnarar Reykjakots geta verið með. Á nýju ári er fyrirhugað að stofna félagið formlega, setja markmið þess og kjósa stjórn. Strax kom fram hugmynd að halda vinahátíð á Reykjakoti í vor eða sumar. Einnig voru ræddar hugmyndir um verkefni sem hverfið og leikskólinn geta unnið að í sameiningu.
Við þökkum kærlega fyrir þennan hlýhug og frábæran stuðning við Reykjakot.
Tengt efni
Afmælisveisla í Reykjakoti
Þann 25. febrúar átti leikskólinn Reykjakot 20 ára afmæli.
Til hamingju með 20. ára afmælið Reykjakot
Leikskólinn Reykjakot á 20 ára afmæli í dag 25. febrúar 2014.
Prjónuðu 94 húfur fyrir heimilislausa
Í desember 2009 tók starfsfólk leikskólans Reykjakots í Mosfellsbæ þátt í verkefninu „Hlýjar hendur fyrir börn“ og prjónaði 55 vettlingapör fyrir Mæðrastyrksnefnd.