Leik- og grunnskólabörn í Mosfellsbæ tóku vel á móti hlaupurunum, sem hlaupið hafa hringinn í kringum landið til styrktar krabbameinssjúkum börnum, þegar þeir komu inn í Mosfellsbæ.
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri afhenti þeim áheitabréf upp á 100.000 krónur og bæjarfulltrúar færðu hjónunum hvorn sinn blómvöndinn með 15 rósum úr Mosfellsdal, eina rós fyrir hvern dag sem þau eru búin að hlaupa. Hópur hlaupara úr Mosfellsbæ tók á móti þeim við Esjurætur og hyggst hlaupa með þeim á leiðarenda.
Hlaupararnir eru tvenn hjón, Signý Gunnarsdóttir, Sveinn Benedikt Rögnvaldsson, Alma María Rögnvaldsdóttir og Guðmundur Guðnason. Í janúar 2010 greindist þriggja ára sonur Sveins og Signýjar með hvítblæði og hefur hann gengið í gegnum strembna lyfjameðferð. Eftir margra mánaða raunir er hann kominn á beinu brautina og er nú í töflumeðferð þar til haustið 2012. Hann er frísklegur í dag og varla hægt að merkja á honum að hann hafi gengið í gegnum gríðarlega þrautargöngu.
Í ágúst 2010 tóku Sveinn og Signý, Alma María systir Sveins og Guðmundur maður hennar ákvörðun um að hlaupa hringinn í kringum landið fyrir Styrkarfélag krabbameinssjúkra barna og fá þannig tækifæri á að skila til baka til félags sem hefur reynst ómetanlegur stuðningur.
Tengt efni
Tendrun jólatrés á Miðbæjartorgi vel sótt
Um árabil hefur tendrun ljósa á jólatrénu á Miðbæjartorgi markað upphaf jólahalds í Mosfellsbæ.
Vel heppnað Bókmenntahlaðborð
Húsfyllir á opnun jólalistaverkamarkaðar í Listasal Mosfellsbæjar