Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ var settur í fyrsta sinn í dag við hátíðarviðhöfn að viðstöddu fjölmenni.
Menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, flutti ávarp ásamt Árna Páli Árnasyni, félagsmálaráðherra og fyrsta þingmanni kjördæmisins, Haraldi Sverrissyni bæjarstjóra, Ragnheiði Ríkharðsdóttur og fleirum.
Skólahljómsveit Mosfellsbæjar spilaði fyrir utan Brúarland þegar gesti bar að garði.
Haraldur Sverrisson og Karl Tómasson, forseti bæjarstjórnar, færðu Guðbjörgu Aðalbergsdóttur skólameistara, gjöf frá Mosfellsbæ í tilefni dagsins. Gjöfin var klukka sem hengja má á vegg og nota til að hringja inn og út úr tímum.
Framhaldsskólinn starfar í endurgerðu húsnæði að Brúarlandi sem byggt var á þriðja áratug síðustu aldar og var fyrsti barnaskóli Mosfellinga. Skólinn mun starfa þar í um tvö ár eða uns byggt hefur verið nýtt skólahúsnæði í miðbæ Mosfellsbæjar. Stefnt er að því að hönnunarsamkeppni um nýjan skóla fari af stað í haust.
Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ er nýr framhaldsskóli sem kennir sig við auðlindir og umhverfi í víðum skilningi og eru þær áherslur samfléttaðar við skólastarfið. Þar er jafnt átt við auðlindir í náttúrunni sem og mannauð með áherslu á lýðheilsu og menningarlegar auðlindir.
Enn fremur er stefnt að því að gera umhverfi skólans að lifandi þætti í skólastarfinu þar sem hugað verður m.a. að náttúrufræði umhverfisins, virðingu fyrir umhverfinu og hvernig njóta má umhverfisins og nýta á skynsamlegan hátt.
Hugmyndafræði og kennsluhættir skólans einkennast af því að nemendur eru virkir þátttakendur í eigin námi, öðlast sjálfstæði og stjórna námshraða sínum með góðum stuðningi kennara og námsráðgjafa. Notaðar verða fjölbreyttar verkefnamiðaðar kennsluaðferðir og námsmat sem er stöðugt í gangi og miðast við hugmyndir um leiðsagnarmat.
Upplýsingatæknin verður notuð til að auka fjölbreytni í skólastarfinu og fyrir utan námsefni í kennslubókum verður allt námsefni, áætlanir, verkefni og upplýsingar aðgengilegt í gegnum kennslukerfi skólans á netinu. Stundatafla nemenda er sveigjanleg þannig að nemendur stjórna hluta af tíma sínum sjálfir.
Skólinn leggur áherslu á að bjóða öllum nemendum metnaðarfullt nám og að það sé sameiginlegt markmið nemenda og kennara að nemendur nái góðum árangri.
Síðast en ekki síst er mikil áhersla lögð á að byggja upp öflugt og skemmtilegt félagslíf nemenda þar sem allir nemendur geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Tengt efni
FMOS tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna 2023
Fimm skólar eða aðrar menntastofnanir eru tilnefndar til Íslensku menntaverðlaunanna 2023.
Einstakt samstarf í baráttunni gegn einelti
Hátt í 200 ungmenni úr Varmárskóla og Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ unnu saman í dag, á alþjóðlegum baráttudegi gegn einelti, á vel heppnuðu nemendaþingi um einelti.
Svefn er gulls ígildi - Fyrirlestur 11. október kl. 19:30
FMOS og Félagsmiðstöðin Ból í samvinnu við ÍSÍ #beactive bjóða foreldrum og öllum sem vilja á fyrirlestur með Dr. Erlu Björnsdóttur, stofnanda Betri svefns.