Laugardaginn 17. júní fara fram mikil hátíðarhöld á þjóðhátíðardegi Íslendinga. Á sunnudaginn fer svo fram hið árlega Kvennahlaup þar sem hundruðir kvenna hittast að Varmá og hlaupa eða ganga sér til skemmtunar.
Laugardagur 17. júní
Hátíðardagskrá á sjálfan þjóðhátíðardaginn hefst í Lágafellskirkju kl. 11:00 þar sem árleg hátíðarguðsþjónusta fer fram og skátar standa heiðursvörð. Blakdeild Aftureldingar mun vígja nýjan strandblakvöll á útivistarsvæðinu Stekkjarflöt við Álafosskvos. Uppsetning á vellinum er fyrsta verkefnið sem lítur dagsins ljós eftir kosninguna í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó. Stekkjarflöt – útivistarparadís fékk þar flest atkvæði. Bikarmeistarar karla og kvenna í blaki munu leika vígsluleikinn og í kjölfarið mun blakdeildin standa fyrir móti fyrir börn og unglinga.
Skrúðganga verður frá Miðbæjartorginu kl. 13:45 og munu skátar úr Mosverjum leiða gönguna niður að Hlégarði. Gengið er niður Þverholt og Bogatanga í átt að hestinum á hringtorginu ofan hesthúsahverfisins. Þaðan er gengið upp skólabrautina í átt að Hlégarði. Barnadagskrá hefst við Hlégarð kl. 14:00. Þar verða hoppukastalar, skátaleikir, andlitsmálun og fleira fyrir krakkana. Á sviðinu munu m.a. koma fram Solla stirða, Sveppi og Villi, Aron Hannes, danshópur og söngvarar úr Mosfellsbæ.Að lokinni barnadagskrá tekur við keppnin Sterkasti maður Íslands í umsjá Hjalta Úrsus.
Afturelding verður með sitt glæsilega kaffihlaðborð í Hlégarði kl. 14:00-16:00.
Mosfellingar eru hvattir til að klæða sig upp í tilefni dagsins. Þeim sem klæðast þjóðbúningi 17. júní verður boðið frítt í kaffihlaðborðið.
Um kvöldið fer fram dansleikur í Hlégarði þar sem Sálin hans Jóns míns leikur.
Dagskrá
Kl. 11:00
- Hátíðarguðsþjónusta í Lágafellskirkju
- Prestur: Sr. Ragnheiður Jónsdóttir
- Ræðumaður: Anna Sigríður Guðnadóttir, bæjarfulltrúi
Kl. 13:00
- Vígsla strandblakvallar á Stekkjarflöt
- Nýr strandblakvöllur vígður á útivistarsvæðinu Stekkjarflöt við Álafosskvos
- Bikarmeistarar kvenna og karla leika vígsluleikinn að loknu ávarpi frá formanni íþrótta- og tómstundanefndar
- Í framhaldi tekur við strandblakmót fyrir börn og unglinga í umsjá Blakdeildar Aftureldingar
Kl. 13:45
- Skrúðganga frá Miðbæjartorgi
- Skátafélagið Mosverjar leiðir skrúðgöngu að Hlégarði
Kl. 14:00
- Fjölskyldudagskrá við Hlégarð
- Skólahljómsveit Mosfellsbæjar tekur á móti skrúðgöngu
- Ávarp fjallkonu
- Hátíðarræða: Bryndís Haraldsdóttir bæjarfulltrúi og þingmaður
- Solla stirða úr Latabæ er kynnir dagsins
- Krakkar af leikskólanum Reykjakoti syngja nokkur lög
- Sveppi og Villi mæta með gítarinn og trylla þjóðhátíðargesti
- Aron Hannes úr Söngvakeppni Sjónvarpsins lætur sjá sig
- Atriði úr Skilaboðaskjóðunni sem sýnd hefur verið í Bæjarleikhúsinu
- Danshópur DWC stígur trylltan dans
- Glæsilegt kaffihlaðborð Aftureldingar í Hlégarði
- Hoppukastalar, skátaleikir og andlitsmálun
Kl. 16:00
- Sterkasti maður Íslands
- Keppt um titilinn Sterkasti maður Íslands á Hlégarðstúninu
- Hjalti Úrsus heldur utan um þessa árlegu aflraunakeppni
Sunnudagur 18. júní
Á sunnudeginum fer hið árlega kvennahlaup fram. Boðið verður upp á fjórar vegalengdir: 900 m, 3 km, 5 km, 7 km og 9 km. Hlaupið hefst á íþróttavellinum að Varmá kl. 11:00 að lokinni upphitun. Mosfellska söngkonan Stefanía Svavars ríður á vaðið kl. 10:30 og þær Alfa og Halla Karen stjórna síðan formlegri upphitun.
- Skráning er hafin í World Class í Lágafellslaug en einnig er hægt að skrá sig á staðnum frá kl. 10:00
- Verð: 1.000 kr. fyrir 12 ára og yngri og 2.000 kr. fyrir eldri en 12 ára
- Allir þátttakendur fá bol og verðlaunapening, auk þess fá langömmur rós
- Að loknu hlaupi er þátttakendum boðið frítt í sund að Varmá í boði Mosfellsbæjar
- Næg bílastæði eru við íþróttamiðstöðin að Varmá, Hlégarð og Brúarland