Veðurstofa Íslands hefur gefið út gular veðurviðvaranir fyrir daginn í dag og næstu daga.
Í dag, fimmtudaginn 30. janúar, taka í gildi gular veðurviðvaranir vegna suðaustanhríðarveðurs sem gilda frá kl. 10 á Suðurlandi, Faxaflóa og á Miðhálendinu, frá kl. 11 á Breiðafirði og frá kl. 12 á Vestfjörðum. Búast má við suðaustan 15-23 m/s með snjókomu, skafrenningi og lélegu skyggni á fjallvegum og innsveitum. Einnig má búast við talsverðri hálku og verður varasamt ferðaveður.
Frá föstudagskvöldi 31. janúar til sunnudagskvölds 2. febrúar hefur verið gefin út gul veðurviðvörun fyrir landið allt vegna sunnanstorms, úrhellisrigningar og asahláku. Veðurspár gera ráð fyrir lægðagangi, með hvössum sunnanáttum, með úrhellisrigningu á sunnan- og vestanverðu landinu. Spáð er asahláku víða á landinu, miklu álagi á fráveitukerfi og er fólk hvatt til að hreinsa vel frá niðurföllum til að forðast vatnstjón. Af þessum sökum má að auki búast við vatnavöxtum í ám og vötnum víða á landinu vegna asahláku og leysinga. Einnig má búast við hálku á vegum og eru ökumenn hvattir til að fara að öllu með gát.
Athugið að hægt er að sjá staðsetningu niðurfalla á kortavef Mosfellsbæjar. Í valmyndinni hægra megin er smellt á Veitur > Fráveita > Niðurföll.
Íbúar geta sótt sand og salt við þjónustustöðina, Völuteig 15. Einnig er hægt að nálgast salt á fjórum öðrum stöðum í bænum:
- biðskýli í Vefarastræti við Helgafellsskóla
- grenndarstöð Vogatungu
- grenndarstöð Bogatanga
- afleggjari að Mosfellskirkju í Mosfellsdal
Nauðsynlegt er að hafa meðferðis poka eða ílát undir saltið.