Fimmtudaginn 4. janúar voru afhentar viðurkenningar til íþróttafólks sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) auk þess sem kjör Samtaka íþróttafréttamanna (SÍ) á íþróttamanni ársins, liði ársins og þjálfara ársins voru tilkynnt. Einnig var útnefndur Íþróttaeldhugi ársins úr röðum sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni. Með því vill ÍSÍ vekja athygli á starfi sjálfboðaliða en þeir gegna mikilvægu hlutverki hjá öllum íþróttafélögum landsins.
Guðrún Kristín Einarsdóttir, sem starfað hefur fyrir Aftureldingu og Blaksamband Íslands, var útnefnd Íþróttaeldhugi ársins 2023. Hún hlaut veglegan verðlaunagrip sem Sigurður Ingi Bjarnason gullsmiður hannaði sérstaklega fyrir þennan titil.
ÍSÍ bárust 163 tilnefningar um 112 einstaklinga úr 20 íþróttagreinum en sérstök valnefnd valdi þrjá einstaklinga þar úr:
- Edvard Skúlason, sem starfað hefur fyrir Knattspyrnufélagið Val (knattspyrna),
- Guðrún Kristín Einarsdóttir, sem starfað hefur fyrir Aftureldingu og Blaksamband Íslands (blak),
- Ólafur Elí Magnússon, sem starfað hefur fyrir Íþróttafélagið Dímon (borðtennis, glíma, blak, badminton og frjálsíþróttir)
Öll hafa þau unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu íþrótta.
Nánari upplýsingar á vef ÍSÍ:
Ljósmynd: Viktor Örn Guðlaugsson