Tillagan gerir ráð fyrir því að landi Grundar verðu skipt upp í þrjár lóðir; tvær fyrir ný heilsárshús og eina fyrir núverandi sumarbústað.
Mosfellsbær auglýsir hér með skv. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 tillögu að breytingum á deiliskipulagi frá Reykjalundarvegi að Húsadal frá 2004, síðast breyttu 27. ágúst 2008. Með úrskurði Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála 16. mars 2005 var samþykkt bæjarstjórnar á deiliskipulaginu felld úr gildi að því er tók til lóðar Grundar, landnúmer 125419.
Tillagan fjallar um ofangreinda lóð og gerir ráð fyrir að henni verði skipt upp í þrjár lóðir; tvær fyrir ný heilsárshús og eina fyrir núverandi sumarbústað. Einnig er lagt til að lega brúar yfir Varmá og göngustígs að henni breytist lítillega. Aðkoma að lóðunum verði um Lerkibyggð. Kvöð verði á fremstu lóðinni um aðkomu að hinum tveimur og kvöð verði um gönguleið yfir lóðirnar frá Lerkibyggð að brú yfir Varmá.
Tillöguuppdráttur með greinargerð verður til sýnis í þjónustuveri Mosfellsbæjar, Þverholti 2, 1. hæð, frá 10. júní 2009 til og með 22. júlí 2009, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér tillöguna og gert við hana athugasemdir.
Athugasemdir skulu vera skriflegar og hafa borist skipulags- og byggingarnefnd Mosfellsbæjar, Þverholti 2, 270 Mosfellsbæ, eigi síðar en 22. júlí 2009. Hver sá sem ekki gerir athugasemd við tillöguna innan þessa frests telst vera henni samþykkur.
3. júní 2009
Skipulagsfulltrúi Mosfellsbæjar