Hestamannafélagið Hörður stóð fyrir glæsilegri sýningu í reiðhöll sinni að Varmárbökkum í Mosfellsbæ föstudaginn 21. mars.
Líklega hafa aldrei mætt jafn margir í reiðhöllina og þetta kvöld eða um 800 manns. Sýningin var keyrð tvisvar um kvöldið, en á hana var boðið frítt öllum grunnskólanemum í Mosfellsbæ. Yngri nemendur mættu á fyrri sýninguna og þeir eldri á þá síðari.
Boðið var uppá fjölbreytt atriði sem sett voru saman af krökkum í æskulýðsstarfinu hjá félaginu, auk þess sem þau fengu hina frábæru Harðarkonu Ragnheiði Þorvaldsdóttur til að sýna hinar ýmsu hestakúnstir. Í einu atriðinu sem kallaðist „það hljóp einhver hundur í hestinn“ fékk hún til liðs við sig Súsönnu Katarínu Sand Guðmundsdóttur og tíkina Sönnu. Vakti það atriði mikla lukku meðal áhorfenda.
Stór hópur krakka í barnaflokki klæddi sig upp í hina ýmsu grímubúninga og sýndi glæsilega mynsturreið. Þá var keppt í hestafótbolta og kom í ljós að það leyndist bleikálóttur „Mesi“ í hestakosti krakkanna, en hann skoraði flest mörkin. Sýnt var hvernig hægt er að þjálfa hesta með mismunandi aðferðum. Ungar Harðarstúlkur kepptu í boðhlaupi og Smala, auk þess að boðið var uppá glens og grín.
Allir sem mættu fengu happdrættismiða og voru dregnir úr fjöldi veglegra vinninga.
Allt var þetta gert með þeim tilgangi að vekja athygli á hestamennsku sem skemmtilegu og gefandi áhugamáli, en þulirnir fóru á kostum í lýsingum atriðanna og náðu án ef að kveikja áhuga einhverra áhorfenda. Þá voru fulltrúar hestamannafélagsins með upplýsingabás þar sem streymdi að áhugasamir krakkar að kynna sér hvað þurfi til að byrja í hestamennsku. Að lokum sýndu nokkrir afreksknapar af yngri kynslóðinni gangtegundir íslenska hestsins og buðu svo áhorfendum að stíga inná völlinn og klappa hestunum.
Þótti sýningin takast með eindæmum vel og fékk Æskulýðsnefnd Harðar mikið lof fyrir framtakið.