Þar sem veðurspá Veðurstofunnar gerir ráð fyrir mikilli rigningu á morgun, föstudaginn 20. janúar, hvetur Mosfellsbær íbúa til að huga vel að frárennslislögnum og niðurföllum við hús sín og hreinsa snjó og klaka til að fyrirbyggja mögulegt vatnstjón.
Starfsfólk bæjarins og verktakar hafa unnið að því síðustu daga að hreinsa frá niðurföllum í götum og munu salta og sanda götur og stíga.
Mikilvægt er að bæjarbúar séu meðvitaðir um þá hættu sem skapast getur við aðstæður sem þessar og bregðist við henni með því að moka frá niðurföllum og fylgist með vatni í kringum sín heimili.
Húseigendum er bent á að hreinsa snjóhengjur og grýlukerti af húsþökum. Við erfiðar veðuraðstæður getur fólki stafað hætta af þegar snjór og ís fellur niður. Við slíkar aðstæðu getur einnig orðið umtalsvert eignatjón.
Hjá Þjónustustöð (áhaldahúsi) bæjarins, Völuteigi 15, geta íbúar fengið salt og sand til að bera á plön og stéttar við heimahús, hinsvegar er mælt með að nota frekar sand miðað við þær aðstæður sem munu líklegast skapast. Sandur er í gulum kistum ásamt skóflum við þjónustustöðina en íbúar þurfa að athuga að hafa með sér ílát.
Í neyðartilvikum eru íbúar hvattir til þess að hringja í 112 sem metur aðstæður og kallar til viðbragðsaðila ef hætta skapast fyrir fólk og eignir.
Athugið að hægt er að sjá staðsetningu niðurfalla á kortavef Mosfellsbæjar. Í valmyndinni hægra megin er smellt á Veitur > Fráveita > Niðurföll.
Tengt efni
Hlákutíð framundan samkvæmt veðurspá
Samkvæmt veðurspá fer veður hlýnandi á næstu dögum og því líklega hlákutíð framundan.
Vetrarþjónusta
Siðustu vikur hafa bæði verktakar og starfsfólk þjónustustöðvar verið kölluð út nánast daglega til að sinna verkefnum tengdum snjómokstri eða hálkuvörnum og starfsmenn þjónustustöðvar verið á vaktinni allan sólahringinn.
Gul veðurviðvörun fram að hádegi 18. janúar 2024
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vekur athygli á gulri veðurviðvörun í nótt og fram að hádegi á morgun fimmtudaginn 18. janúar 2024.