Vinna hófst við gerð nýrrar Gæðahandbókar vegna innra eftirlits í mötuneytum leik- og grunnskóla í Mosfellsbæ í ágúst 2024. Samið var við fyrirtækið Sýni um að halda utan um verkefnið og veita ráðgjöf. Stofnaður var stýrihópur en í honum áttu sæti sérfræðingar Sýnis, fulltrúar fræðslu- og frístundasviðs, fulltrúar matreiðslufólks og fulltrúi skólastjórnenda.
Gæðahandbókin lýsir gæðakerfinu sem Mosfellsbær notar við framleiðslu og framreiðslu matar í öllum leik- og grunnskólum sveitarfélagsins. Þar er fjallað um hvernig gæðakerfið er notað í skólunum, því haldið við og það endurskoðað reglulega. Tekin er fyrir ábyrgðarskipting, skyldur starfsfólks og hlutverk þeirra í gæðakerfinu. Eldhús skólamötuneytanna hafa innleitt virkt eftirlit til að tryggja sem best öryggi nemenda og starfsfólks sem borða í mötuneytunum. Þau þurfa m.a. að tryggja að vörur séu í lagi við móttöku, að fylgst sé með hitastigi í viðkvæmri matvöru, að þrifaáætlun sé fylgt og að umgengnisreglur séu virtar. Í gæðahandbókinni eru einnig upplýsingar um þær kröfur sem mötuneytin eiga að gera til starfseminnar og til sinna birgja.
Hvert eldhús fékk heimsókn frá ráðgjöfum Sýnis þar sem farið var yfir helstu þætti á hverjum stað fyrir sig. Mikil ánægja var með þessa milliliðalausu ráðgjöf og ábendingar.
Gæðahandbókin verður tilbúin um miðjan febrúar þegar ábendingar hafa borist frá öllum leik- og grunnskólunum Mosfellsbæjar og Heilbrigðiseftirliti Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness.
Þá tekur við ný og endurskoðuð fræðsluáætlun sem unnin er á fræðslu- og frístundasviði með mannauðsráðgjafa. Fyrsta námskeiðið á árinu 2025 hefur nú þegar verið auglýst en það fjallar um meðhöndlun á matvælum í mötuneytum í grunn- og leikskólum. Mikill áhugi er á námskeiðinu hjá okkar góða starfsfólki og mörg hafa skráð sig.