Hoppa í meginmál
mos.is - Forsíða

Í und­ir­bún­ingi er til­laga að breyt­ingu á að­al­skipu­lagi Mos­fells­bæj­ar 2002-2024.

Í til­lög­unni felst að sett­ur er inn 1,6 ha reit­ur með skil­grein­ing­unni „svæði fyr­ir þjón­ustustofnanir“ norðan Skarhólabrautar næst Vesturlandsvegi. Vesturhluti þessa reits er í gildandi aðalskipulagi skilgreindur sem opið, óbyggt svæði en austurhluti hans er skilgreindur sem íbúðarsvæði (hluti af Túnahverfi).

Aðdraganda tillögunnar má rekja til erindis Slökkviliðs Höfuðborgarsvæðisins til bæjarráðs, dagsett 20 október 2008, þar sem óskað var eftir viðræðum við bæjar­yfir­völd um lóð fyrir slökkvistöð á þessum stað. Í erindinu kom fram að rannsóknir og greiningar á starfsemi Slökkviliðsins hefðu leitt í ljós að núverandi slökkvistöð að Tunguhálsi væri mjög illa staðsett til að sinna þjónustusvæði sínu innan þeirra tíma­marka fyrir útkallstíma, sem starfseminni væru sett. Til þess að bæta þjónustuna hefði því stjórn SHS markað þá stefnu, að byggðar yrðu tvær nýjar slökkvistöðvar, önnur í grennd við Stekkjarbakka í Breiðholti og hin við Vesturlandsveg, en stöðin við Tungu­háls yrði lögð niður. Eftir athuganir og viðræður við Mosfellsbæ væri það niðurstaða SHS að ákjósanlegasti staðurinn við Vesturlandsveg væri þessi staður við Skarhólabraut.

Síðar á undirbúningsferlinu þróaðist málið á þann veg, að í hugsanlegri stöðvar­bygg­ingu yrði einnig aðstaða svæðislögreglustöðvar fyrir Mosfellsbæ og Grafarvog, sem kæmi í stað tveggja minni stöðva sem nú eru á svæðinu. Í bókun bæjarráðs 22. janúar 2009 var framkomnum hugmyndum um sameigin­lega aðstöðu lögreglu og slökkviliðs í Mosfellsbæ fagnað. Þessi áform voru síðan kynnt íbúum í nágrenninu á fundi þann 3. mars 2009 og voru þá einnig kynntar hugmyndir að byggingum og drög að deili­skipulagi væntanlegrar lóðar.

Síðan hafa tillögur að aðalskipulagsbreytingu og deiliskipulagi lóðar fyrir slökkvi- og lögreglu­stöð verið í vinnslu og umfjöllun hjá skipulags- og byggingarnefnd. Við gerð deiliskipulagstillögunnar hefur verið haft samráð við Vegagerðina, sem hefur fallist á að lóð stöðvarinnar megi ganga lítillega inn á veghelgunarsvæði Vesturlands­vegar eins og það er skilgreint í gildandi aðalskipulagi, með því skilyrði að hugsan­legur kostn­aður vegna mannvirkja til að taka upp hæðarmun, sem kynnu að verða nauðsyn­leg þess vegna þegar kemur að gerð mislægra gatnamóta, falli ekki á Vegagerðina.

Tillögur að aðalskipulagsbreytingu og deiliskipulagi liggja nú fyrir fullmótaðar og verða væntanlega teknar til fyrri umræðu í bæjarstjórn 21. október n.k. Hljóti þær samþykki, verður næsta skref í skipulagsferlinu að auglýsa þær saman skv. 21. og 25. gr. skipulags- og byggingarlaga með 6 vikna athugasemdafresti.

Netspjall

Opið virka daga
mán. – fim. 8:00-16:00
fös. 8:00-12:00

Þjónustuver 525-6700

Opið virka daga
mán. – fim. 8:00-16:00
fös. 8:00-13:00