Nýtt húsnæði Framhaldsskólans í Mosfellsbæ var vígt föstudaginn 24. janúar að viðstöddu fjölmenni.
Með því lýkur tæplega sex ára vegferð frá því að samkomulag um stofnun skólans var undirritað þann 19. febrúar árið 2008 af menntamálaráðherra og bæjarstjóra Mosfellsbæjar. Skólinn hóf starfsemi haustið 2009, framkvæmdir við húsið hófust í júní 2012 og hófst kennsla í húsinu nú í janúar.
Vígsluathöfnin var einstaklega glæsileg og þar var boðið upp á tónlistaratriði að hætti Mosfellinga. Skólahljómsveit Mosfellsbæjar tók á móti gestum, nemendur í tónlistardeild Listaskólans léku og hljómsveitin Kaleo spilaði nokkur lög.
Guðbjörg Aðalbergsdóttir skólameistari bauð gesti velkomna, Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, hélt ávarp ásamt Ragnheiði Ríkharðsdóttur þingmanni og Haraldi Sverrissyni bæjarstjóra. Pétur Guðmundsson forstjóri Eyktar afhenti að lokum Guðbjörgu formlega lyklavöld að húsinu.
Skólinn tekur 400-500 nemendur
Stærð byggingarinnar er um 4100 m2 og tekur hún um 400-500 nemendur. Húsinu er skipt í sex kennsluklasa eftir námsgreinum eða námsgreinaflokkum og í hverjum klasa eru stór rými, lítil, opin og lokuð. Stundum er allur hópurinn saman í kennslustofunni en skiptist líka niður í minni hópa sem dreifast um klasann. Húsið er einstaklega glæsilegt og samræmist vel umhverfinu og áherslum skólans sem eru á umhverfi og auðlindir.
Mun hafa mikil áhrif á samfélagið
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri, sagði við þetta tilefni að það hafi verið heillaskref að stofna skólann og að staða hans ætti eftir að styrkjast verulega um ókomin ár. „Skólinn mun styðja vel við skólasamfélagið sem fyrir er og efla unga fólkið okkar til góðra verka. Tilkoma bæði svona glæsilegs húss og ennfremur þess stóra hóps af fólki sem kemur til með að starfa hér við kennslu og nám, í hjarta bæjarins, mun hafa mikil áhrif á það samfélag sem við búum“.
Mosfellsbær stendur að byggingu skólans ásamt ríkinu og leggur til 40% stofnkostnaðar. Framkvæmdasýsla ríkisins sá um eftirlit með framkvæmdunum fyrir hönd mennta– og menningarmálaráðuneytisins og Mosfellsbæjar. Aðalverktaki hússins er Eykt ehf.
Hönnun
- a2f arkitektar – arkitekta– og samræmingarhönnun
- Birkir Einarsson – landslagshönnun
- Bryndís Bolladóttir – listskreyting
- Drekafluga – lýsingarhönnun
- Efla – hljóðhönnun
- Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar – rafmagnshönnun
- Verkís – burðarþols og lagnahönnun, umhverfisvottun
- VSI öryggishönnun og ráðgjöf – brunahönnun
Mynd 1: Skólameistari tekur við lyklunum úr höndum forstjóra Eyktar.
Mynd 2: Ánægð með ný húsakynni.
Tengt efni
FMOS tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna 2023
Fimm skólar eða aðrar menntastofnanir eru tilnefndar til Íslensku menntaverðlaunanna 2023.
Einstakt samstarf í baráttunni gegn einelti
Hátt í 200 ungmenni úr Varmárskóla og Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ unnu saman í dag, á alþjóðlegum baráttudegi gegn einelti, á vel heppnuðu nemendaþingi um einelti.
Svefn er gulls ígildi - Fyrirlestur 11. október kl. 19:30
FMOS og Félagsmiðstöðin Ból í samvinnu við ÍSÍ #beactive bjóða foreldrum og öllum sem vilja á fyrirlestur með Dr. Erlu Björnsdóttur, stofnanda Betri svefns.