Lágafellsskóli náði þeim frábæra árangri í gærkvöldi að tryggja sér þriðja sætið í úrslitakeppninni í skólahreysti.
Lið Lágafellsskóla setti jafnframt Íslandsmet í hraðabrautinni. Keppendur frá Lágafellsskóla voru: Jóhanna EmblaÞorsteinsdóttir, 9. ÝÞ; Kjartan Elvar Baldvinsson, 9. AÁ; TelmaÞrastardóttir, 10. SÓ og Andri Jamil Ásgeirsson, 10. SÓ. Þetta er í fyrsta sinn sem Lágafellsskóli kemst í úrslit í Skólahreysti og því frábær árangur að ná þriðja sætinu.
Varmárskóli stóð sig einnig vel í keppninni þótt hann hafi ekki náð í úrslitakeppnina. Meðal annars setti nemandi úr Varmárskóla, Birta Jónsdóttir, stórkostlegt Íslandsmet í undankeppninni þegar hún náði að hanga á slá í sex mínútur og 28 sekúndur. Þess má geta að sigurvegari úrslitakeppninnar hékk á slá í um fjórar og hálfa mínútu, sem er langt frá meti Birtu.
Skólahreysti er liðakeppni milli grunnskóla landsins. Mosfellingarnir og hjónin Andrés Guðmundsson og Lára B. Helgadóttir hafa haft umsjón með keppninni frá upphafi. Hvert lið samanstendur af tveimur strákum og tveimur stelpum sem öll þurfa að vera nemendur í 8, 9. eða 10. bekk síns skóla. Keppt er í eftirfarandi keppnisgreinum: Upphífingum (strákar), armbeygjum (stelpur), dýfum (strákar), hreystigreip (stelpur), hraðaþraut (strákar og stelpur).
Keppendur skipta á milli sín keppnisgreinum. Annar strákurinn spreytir sig á upphífingum og dýfum meðan hinn keppir í hraðaþrautinni. Hjá stelpunum er hið sama uppi á teningnum. Önnur stúlkan keppir í armbeygjum og hreystigreip en hin tekur þátt í hraðaþrautinni. Tveir skólar keppa samtímis í hverri þraut fyrir utan hreystigreip en þar takast á fimm til átta skólar í einu.