Vegna áforma um sérhæfða heilbrigðisstofnun á Tungumelum og aukið framboð á stórum atvinnulóðum á svæðinu er í bígerð tillaga að breytingu á aðalskipulagi.
Greinargerð um tillöguna, markmið hennar og forsendur
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar áformar að leggja til að aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024 verði breytt vegna áforma um sérhæfða heilbrigðisstofnun og hótel í tengslum við hana á Tungumelum og áforma um að að auka framboð á stórum atvinnulóðum á þessu svæði. Meginbreytingin felst í því að athafnasvæði sunnan Fossavegar stækkar til vesturs, suðurs og austurs og landnotkun þar verður skilgreind sem blanda af svæði fyrir þjónustustofnanir og athafnasvæði.
Staðhættir
Tungumelar eru á milli Köldukvíslar og Leirvogsár austan Vesturlandsvegar, gegnt íbúðarhverfinu í Leirvogstungu. Landslag einkennist af fremur lítt grónum melum. Tengivegur (Fossavegur) í austur-vestur stefnu um miðbik svæðisins mun tengja það við Vesturlandsveg á mislægum gatnamótum. Svæðið er í 2,5 km fjarlægð frá miðbæ Mosfellsbæjar og í góðum tengslum við meginumferðarstrauma. Norðan Fossavegar er þegar hafin uppbygging athafnasvæðis á u.þ.b. 24 ha lands.
Gildandi skipulag
Svæðisskipulag: Í tillögu að breyttu svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001 – 2024 sem auglýst er samhliða þessari breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024 er afmarkaður byggðarreitur fyrir blandaða byggð á Tungumelum, um 47 ha að stærð. Samkvæmt breyttri töflu 3.2 í greinargerð svæðisskipulagsins er áætlað að á tímabilinu 1998 – 2024 aukist atvinnuhúsnæði í Mosfellsbæ um 261 þús. m², en það er 63 þús. m2 meiri aukning en gert er ráð fyrir í óbreyttu svæðisskipulagi. Viðbótaraukningin skiptist niður á flokkana „Verslun og skrifstofur,“ „Iðnaður og vörugeymslur“ og „Sérhæfðar byggingar“ skv. lauslegri áætlun í hlutfallinu 30 – 10 – 60%.
Aðal- og deiliskipulag: Í aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002 – 2024 er svæðið á Tungumelum skilgreint sem athafnasvæði og var upphaflega 16,3 hektarar, en með aðalskipulagsbreytingu árið 2005 var það stækkað í 35 ha. Í þeirri breytingu kom Fossavegur inn á aðalskipulagið sem tengivegur, ásamt mislægum gatnamótum við Vesturlandsveg. Í fyrirliggjandi deiliskipulagi, sem nær yfir Fossaveg og athafnasvæðið norðan hans, er gert ráð fyrir um 80 þús. m² atvinnuhúsnæðis á þeim hluta svæðisins. Ekki liggur fyrir samþykkt deiliskipulag af suðurhlutanum, sunnan Fossavegar. Meðfram Köldukvísl og Leirvogsá er skilgreind hverfisvernd, 50 m útfrá árbökkum.
Breyting á aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024
Frá því að aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024 var breytt árið 2005 hafa hugmyndir um notkun svæðisins á Tungumelum breytst. Nú er m.a. horft til starfsemi sem krefst stórra lóða, og nýlega skrifaði Mosfellsbær ásamt einkaðilum undir viljayfirlýsingu um að staðsetja sérhæfða heilbrigðisstofnun (sjúkrahús) og hótel í tengslum við það á svæðinu á um 4 ha lóð. Sjúkrahúsinu hefur þegar verið valinn staður næst Köldukvísl, austast á stækkuðum byggðarreit samkvæmt tillögunni.
Þessi áform kalla á breytingar á aðalskipulagi, þ.e. stækkun athafnasvæðis sunnan Fossavegar, og breytta landnotkunarskilgreiningu á þeim hluta Tungumelasvæðisins. Byggðarreiturinn er stækkaður til suðurs, að mörkum hverfisverndarinnar, en áskilið er að byggingar verði ekki nær ánni en 100 m, að syðsti hluti lóða næst ánni verði opinn fyrir almenna gangandi umferð og að lóðarfrágangur verði þannig að ekki verði skörp skil milli lóða og opna svæðisins við ána. Nýtingarhlutfall lóða sunnan Fossavegar verði 0,5 – 0,8 eða nokkru hærra en norðan hans. Stækkun byggðarflekans kallar á færslu reiðstíga austan hans og meðfram Köldukvísl.
Breytingar á uppdrætti felast í eftirfarandi:
- Byggðarfleki sunnan Fossavegar stækkar til vesturs, suðurs og austurs úr 7,5 ha í 23 ha, á kostnað opins óbyggðs svæðis.
- Landnotkun á svæðinu sunnan Fossavegar breytist úr athafnasvæði í blandaða landnotkun, svæði fyrir þjónustustofnanir / athafnasvæði.
- Reiðleið meðfram Köldukvísl færist nær ánni.
- Norður-suður reiðleið austan byggðarfleka á Tungumelum færist austar.
Auk þessara breytinga felur uppdráttur að breyttu skipulagi í sér eftirtaldar aðlaganir að gildandi deiliskipulagi:
- Afmörkun athafnasvæðis á Tungumelum til norðurs og vesturs löguð að gildandi deiliskipulagi. Þessi hluti svæðisins minnkar við það um 2,9 ha.
- Afmörkun veghelgunarsvæðis og lega Vesturlandsvegar og gönguleiðar meðfram honum lagað að gildandi deiliskipulagi mislægra gatnamóta.
- Gönguleið til vesturs frá gatnamótum löguð að gildandi deiliskipulagi Leirvogstungu.
Samanlagðar breytingar á byggðarflekum á Tungumelum fela þannig í sér stækkun um 12,6 ha.
Umhverfisáhrif
Tillagan felur ekki í sér neinar breytingar á áður samþykktum áætlunum um framkvæmdir, sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum skv. viðaukum við lög nr. 106/2000, s.s. um stofnvegi eða tengibrautir. Hún fellur því ekki undir lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana.
Samkvæmt skráningu Þjóðminjasafns frá 2001 (Mosfellsbær, fornleifaskráning, bráðabirgðaskýrsla) eru engar þekktar fornminjar á svæðinu.
Aukning atvinnuhúsnæðis á suðurhluta Tungumela mun hafa í för með sér aukna umferð um Fossaveg og mislæg gatnamót á Vesturlandsvegi. Þessi mannvirki geta þó auðveldlega annað þeirri umferð, þar sem skipulag og hönnun þeirra hefur miðast við að athafnasvæðið á Tungumelum geti stækkað enn frekar í framtíðinni.
Breytingin er talin hafa jákvæð áhrif á samfélagið þar sem hún stuðlar að aukinni fjölbreytni í atvinnulífi og fjölgun starfa í bæjarfélaginu. Hún er ekki talin hafa í för með sér umtalsverð áhrif á andrúmsloft, vistkerfi, heilsu eða öryggi.
Málsmeðferð
Stefnt er að því að fullbúin tillaga verði lögð fyrir bæjarstjórn fyrrihluta janúar 2010. Hljóti hún samþykki, verður næsta skref í skipulagsferlinu að auglýsa hana skv. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga með 6 vikna athugasemdafresti.