Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ (FMOS) flytur í nýtt skólahúsnæði í desember.
Skólinn hefur verið í bráðabirgðahúsnæði í Brúarlandi frá stofnun árið 2009. Undanfarin tvö ár hafa þrengslin verið mjög mikil því um 250 nemendur stunda nám í skólanum, en nú er stutt í að það breytist þegar skólinn fer úr um það bil 700 fermetrum í um 4000 fermetra í nýja húsinu eftir nokkrar vikur. Það þýðir að hægt verður að byrja að fjölga nemendum frá og með áramótum, en áætlað er að nýja skólahúsið fyllist á næstu misserum, en það rúmar um 500 nemendur.
Nemendur og starfsmenn eru orðnir spenntir og óþreyjufullir að bíða eftir nýja húsinu og hlakka til að komast í góða aðstöðu til að stunda nám og kennslu, en skipulag kennslurýmanna tekur mið af verkefnamiðuðum kennsluháttum FMOS með blöndu af litlum og stórum stofum og opnum rýmum. Breytingin fyrir nemendur verður mjög mikil því í nýju kennslurýmunum verður nóg pláss til að stunda námið, bæði í kennslustundum og til verkefnavinnu utan þeirra sem hefur sárlega vantað í þrengslunum í Brúarlandi.
Mesta breytingin verður þó á aðstöðu til verklegrar kennslu í raungreinum og óhætt er að fullyrða að raungreinastofurnar í nýja húsinu verða með best búnu raungreinastofum á landinu. Starfsaðstaða kennara og annarra starfsmanna breytist líka mjög mikið og má eiginlega segja að kennarar fái nú loksins vinnuaðstöðu því hún er varla fyrir hendi í núverandi húsnæði!
Nýtt mötuneyti mun setja mikinn svip á skólastarfið, en þar verður boðið upp á girnilegan, fjölbreyttan og hollan mat allan daginn og matsalurinn er líka hugsaður sem íverustaður fyrir nemendur á milli kennslustunda. Salurinn gefur líka tækifæri til að hafa hvers kyns uppákomur með góðu hljóðkerfi og leiksviði.
En þó að tilhlökkunin sé mikil þá munu bæði nemendur og starfsmenn sjá eftir Brúarlandi, þessu fallega húsi sem hefur mikla sál og góðan anda. Í þessu gamla húsi hefur orðið til alveg sérstaklega góður skólabragur meðal nemenda og starfsmanna og þess vegna er það mikilvægt að færa hann yfir í nýja húsið.
Fyrsti atburður í nýja skólahúsinu verður útskriftarhátíð 20. desember kl. 14:00 þar sem um 25 nemendur verða útskrifaðir frá skólanum.
Allir velunnarar skólans eru velkomnir á þessa hátíð.
Guðbjörg Aðalbergsdóttir
Skólameistari
Tengt efni
FMOS tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna 2023
Fimm skólar eða aðrar menntastofnanir eru tilnefndar til Íslensku menntaverðlaunanna 2023.
Einstakt samstarf í baráttunni gegn einelti
Hátt í 200 ungmenni úr Varmárskóla og Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ unnu saman í dag, á alþjóðlegum baráttudegi gegn einelti, á vel heppnuðu nemendaþingi um einelti.
Svefn er gulls ígildi - Fyrirlestur 11. október kl. 19:30
FMOS og Félagsmiðstöðin Ból í samvinnu við ÍSÍ #beactive bjóða foreldrum og öllum sem vilja á fyrirlestur með Dr. Erlu Björnsdóttur, stofnanda Betri svefns.