Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2020 sem samþykkt var á bæjarstjórnarfundi þann 27. nóvember gerir ráð fyrir að tekjur verði 13.380 m.kr., gjöld án fjármagnsliða 12.412 m.kr., fjármagnsliðir 628 m.kr. og að rekstrarafgangur verði 340 m.kr.
- Áformað er að bæjarsjóður verði rekinn með 340 m.kr. afgangi á næsta ári.
- Gert er ráð fyrir þessum góða afgangi af rekstrinum þrátt fyrir að stefnt sé að því að lækka bæði leikskólagjöld og álagningarprósentur fasteignagjalda á árinu.
- Áætluð rekstrargjöld Mosfellsbæjar á árinu 2020 eru um 5,5 milljarðar króna og áætlaður launakostnaður um 6,3 milljarðar króna.
- Áætlað er að skuldaviðmið nemi 79% í árslok.
Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2020 sem samþykkt var á bæjarstjórnarfundi þann 27. nóvember gerir ráð fyrir að tekjur verði 13.380 m.kr., gjöld án fjármagnsliða 12.412 m.kr., fjármagnsliðir 628 m.kr. og að rekstrarafgangur verði 340 m.kr.
Mikil uppbygging á sér nú stað í Mosfellsbæ. Fyrirhugað er að framkvæma fyrir 2.970 m.kr. á næsta ári sem að mestu rennur til skóla-, gatna- og veitumannvirkja. Gert er ráð fyrir að íbúum í bænum fjölgi um tæp 6% milli ára, en þeir eru nú 12.000.
Áætlunin gerir ráð fyrir að framlegð verði 10,6% og að veltufé frá rekstri verði jákvætt um 1.267 m.kr. eða tæplega 10%. Skuldaviðmið bæjarsjóðs skv. viðmiði sveitarstjórnarlaga verði 79% í árslok.
Leikskóla- og fasteignagjöld lækka
Áætlunin gerir ráð fyrir hóflegri hækkun gjaldskráa til samræmis við stefnumörkun lífskjarasamninganna. Hins vegar er í áætluninni gert ráð fyrir að leikskólagjöld lækki um 5%, auk þess sem álagningarprósentur fasteignagjalda lækka.
Gott umhverfi og framþróun með markvissri stefnumörkun
Gott umhverfi er eitt af einkennismerkjum bæjarins og hefur verið sett í öndvegi með nýrri umhverfisstefnu Mosfellsbæjar sem hefur skýra tengingu við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.Stefna, markmið og aðgerðir Mosfellsbæjar í öllum málaflokkum munu í framtíðinni hafa skýra tengingu við heimsmarkmiðin. Unnið er að mótun stefnu í málefnum eldra fólks, lýðheilsu- og forvarnastefnu og endurskoðun á menningarstefnu og skólastefnu Mosfellsbæjar.
Stefnumörkunin er á forræði einstakra nefnda bæjarins og er stefnt að því að þær verði lagðar fram til umfjöllunar í bæjarstjórn á fyrri hluta ársins 2020.
Bætt þjónusta í brennidepli í fjárhagsáætlun
- Áfram verður unnið að því á næsta ári að gera þjónustu Mosfellsbæjar skilvirkari, aðgengilegri fyrir alla og nýta til þess snjallar lausnir.
- Áframhaldandi aukning verður á nýjum plássum á leikskólum fyrir 12–18 mánaða börn og er gert ráð fyrir að fjölga um 25 pláss á árinu 2020. Þá verður verulegum fjármunum varið til upplýsinga- og tæknimála og bættrar aðstöðu í grunnskólum bæjarins.
- Á sviði fjölskyldumála eru lagðir til auknir fjármunir í málefni fatlaðs fólks, meðal annars með stofnun heimilis fyrir geðfatlaða. Aukin áhersla verður á félagslega ráðgjöf sem byggist á breytingum á lögum um félagsþjónustu.
- Á sviði menningarmála er lagt til að framlag í lista- og menningarsjóð hækki um 14% auk þess sem stefnumörkun um starfsemi Hlégarðs ljúki og auknum fjármunum verði varið í endurbætur hússins.
- Unnið er að endurskoðun aðalskipulags bæjarins, innleiðingu umhverfisstefnu og úrvinnslu verkefna sem hlutu brautargengi í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó. Gert er ráð fyrir aukningu framlaga til Strætó vegna aukinnar þjónustu í nýrri hverfum bæjarins. Þá er Mosfellsbær aðili að samkomulagi um stórátak í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu.
- Vinna við byggingu Helgafellsskóla heldur áfram og nýtt fjölnota íþróttahús hefur verið tekið í notkun.
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri:
„Mosfellsbær er í miklum blóma um þessar mundir og við erum samfélag í örum vexti. Íbúar eru nú 12.000 og þeim heldur áfram að fjölga á næsta ári. Við viljum taka vel á móti fjölskyldufólki í bænum og 5% lækkun leikskólagjalda er liður í þeirri viðleitni. Einnig viljum við koma til móts við bæjarbúa vegna hækkunar fasteignamats og lækka álagningu fasteignagjalda. Við ætlum að viðhalda þeim einkennum sem eru einn af lyklum velgengni okkar sem sveit í borg. Vexti sveitarfélagsins viljum við að stýra með þeim hætti að hann hafi jákvæð áhrif á bæjarbraginn, þjónustu og þjónustustig. Á næsta ári mun íbúum fjölga og tekjur aukast. Um leið og við tryggjum að álögur á íbúa og fyrirtæki hækki ekki að raungildi, heldur lækki í nokkrum tilfellum, þá viljum við að þjónusta við íbúa og viðskiptavini eflist. Allt er þetta gert til að mæta þörfum íbúa nú og til framtíðar, byggja upp gott samfélag og auka lífsgæði íbúa Mosfellsbæjar.“
Almennar upplýsingar um Mosfellsbæ:
- Íbúar Mosfellsbæjar eru 12.000 talsins.
- Mosfellsbær er sjöunda stærsta sveitafélag landsins.
- Gert ráð fyrir að bæjarbúum fjölgi um 5,9% á næsta ári.
- Starfsmenn sveitafélagsins eru rúmlega 800.
Tengt efni
341 milljón króna afgangur af rekstri Mosfellsbæjar
Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2023 var lagður fram á fundi bæjarráðs í dag, mánudaginn 15. apríl 2024. Rekstrarniðurstaðan er jákvæð um 341 milljón.
Rekstrarafgangur Mosfellsbæjar áætlaður tæpur milljarður árið 2024
Í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar sem var lögð fram til síðari umræðu í bæjarstjórn, þann 6. desember, er lögð áhersla á ábyrgan rekstur samhliða mikilli uppbyggingu innviða, háu þjónustustigi og lágum gjöldum til barnafjölskyldna.
Rekstrarafgangur 945 milljónir króna samhliða umfangsmiklum fjárfestingum og framúrskarandi þjónustu við börn og fjölskyldur
Í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar sem var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í dag, þann 8. nóvember er lögð áhersla á ábyrgan rekstur og áframhaldandi uppbyggingu innviða, hátt þjónustustig og lág gjöld til barnafjölskyldna og áframhaldandi áherslu á stafræna þróun og umbætur.