Markmið félagsstarfs eldri borgara er að fyrirbyggja félagslega einangrun aldraðra og finna þekkingu, reynslu og hæfileikum þátttakenda farveg.
Listsköpun, handmennt, spilamennska, kórstarf, leikfimi, sund og ferðalög eru dæmi um starfsemina.
Félagsstarf eldri borgara og FaMos auglýsa sameiginlega dagskrá félagsstarfsins undir Þjónustumiðstöð aldraðra á Eirhömrum. Dagskráin er birt í Mosfellingi á bls. 6 og á vef bæjarins. Einnig er dagskráin send til félaga FaMos eftir netfangaskrá.
Félag aldraðra í Mosfellsbæ og nágrenni, FaMos, var stofnað 1. október 2002.
Í lögum FaMos segir meðal annars:
Rétt á inngöngu eiga allir þeir sem eru orðnir 60 ára og eldri. Tilgangur félagsins er að gæta hagsmuna eldri borgara í Mosfellsbæ og nágrenni ásamt því að sinna tómstunda-, fræðslu- og menningarmálum og vinna að því að skapa félagslegt og efnahagslegt öryggi aldraðra. Efla þátttöku aldraðra í starfi og tómstundum. Félagið er óháð stjórnmálaflokkum og hlutlaust í afstöðu til trúmála.
Gefin eru út félagsskírteini sem gefa félögum kost á verulegum afslætti hjá mörgum verslunum og stofnunum um allt land sbr. afsláttarbók sem Landssamband eldri borgara (LEB) gefur út. Afsláttarbókina er hægt að nálgast á vef LEB.
Öryrkjar og ellilífeyrisþegar (67 ára) fá frítt í sund en til að nýta sér frímiða þarf að fá Moskortið til að nýta sér áunnin réttindi. Moskortið er selt og afhent í Íþróttamiðstöðinni Lágafelli, Lækjarhlíð 1a.
FaMos sendir félögum sínum fréttabréf rafrænt og á pappír 2-3 á ári um það sem efst er á baugi í málefnum aldraðra.
FaMos er hagsmunafélag og í Mosfellsbæ er stór hópur á eftirlaunaaldi og því mikilvægt að koma til móts við þarfir þeirra og standa vörð um hagsmuni eldri bæjarbúa. Því fleiri virkir félagar, því sterkara félag.
Skrifstofan er opin alla miðvikudaga milli kl. 15:00 – 16:00. Stjórnarmenn skiptast á um að vera til viðtals fyrir félaga. Elva Björg Pálsdóttir, forstöðumaður félagsstarfs aldraðra í Mosfellsbæ er ætíð tilbúin að senda stjórnarmönnum FaMos skilaboð s: 586-8014 / 698-0090.
Tengt efni
Opið hús fyrir eldri borgara Mosfellsbæjar
Gott að eldast í Mosfellsbæ
Heilsa og hugur fyrir 60+ byrjar 12. september 2022
Mánudaginn 12. september byrjar námskeiðið Heilsa og hugur fyrir íbúa Mosfellsbæjar sem eru 60 ára og eldri.