Mosfellingur ársins 2021 er Elva Björg Pálsdóttir forstöðumaður félagsstarfs eldri borgara í Mosfellsbæ, en bæjarblaðið Mosfellingur stendur fyrir valinu.
Elva Björg er tómstunda- og félagsmálafræðingur og hóf störf sem leiðbeinandi í handavinnu árið 2010 og tók svo við starfi forstöðumanns 2013 hjá Mosfellsbæ.
„Ég er bara mjög snortin, ég átti alls ekki von á þessu,“ segir Elva Björg þegar henni er tilkynnt um nafnbótina.
„Ég er fyrst og fremst þakklát og þið eruð að koma mér rosalega á óvart. Þetta er mjög skemmtileg byrjun á árinu og gaman að fá klapp á bakið. Ég vil auðvitað tileinka öllum eldri borgurum í Mosfellsbæ þessa viðurkenningu,“ bætir hún við þegar hún fréttir að undirskriftalistar hafi gengið manna á milli með áskorun um að velja hana Mosfelling ársins. Eldri borgarar eru greinilega mjög ánægðir með hennar störf.
Elva Björg tekur við viðurkenningunni úr höndum Hilmars Gunnarssonar ritstjóra Mosfellings. Styttan er eftir leirlistakonuna Þóru Sigurþórsdóttur.
Ljósmyndari: Raggi Óla
„Ég finn fyrir þakklæti í mínu starfi á hverjum degi og það eru sannkölluð forréttindi að vinna með eldri borgurum. Hjá okkur er gleði alla daga og á bakvið hvert andlit býr svo mikil saga sem gaman að er að fræðast um. Það er ekki sjálfgefið að vinna við það sem gefur manni svona mikið í lífinu.
Mitt starf er fólgið í því að vera eldra fólkinu innan handar enda er ég fyrst og fremst að vinna fyrir þau. Þau eiga jafnan frumkvæðið að því sem þau vilja gera og í sameiningu setjum við upp skemmtilega dagskrá.
Það er auðvitað krefjandi á tímum Covid að halda starfseminni gangandi en við höfum náð að halda okkar striki ótrúlega vel í gegnum þetta allt saman. Stjórnvöld eru líka búin að greina það að mikilvægara sé að halda úti starfsemi þessa aldurshóps en að setja á frost.Tómstundir eru ekki bara fyrir fólk sem vill sitja og prjóna. Það er svo margt hægt að gera og öll viljum við verða gömul og búa okkur vel í haginn.“
Þetta er í 17. sinn sem bæjarblaðið Mosfellingur stendur fyrir valinu á Mosfellingi ársins.
Tengt efni
Dóri DNA Mosfellingur ársins 2023
Mosfellingur ársins 2023 er skemmtikrafturinn og höfundurinn Halldór Laxness Halldórsson, betur þekktur sem Dóri DNA.
Halla Karen valin Mosfellingur ársins 2022
Mosfellingur ársins 2022 er Halla Karen Kristjánsdóttir íþróttafræðingur og formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar.
Sigmar Vilhjálmsson Mosfellingur ársins 2020
Bæjarblaðið Mosfellingur hefur útnefnt Sigmar Vilhjálmsson, sem er betur þekktur sem Simmi Vill, Mosfelling ársins 2020.