Rithöfundurinn Einar Kárason mætir galvaskur á Gljúfrastein, sunnudaginn 25. október kl. 16:00, og fjallar um Brekkukotsannál.
Skáldverkið kom fyrst út árið 1957, það fyrsta sem kom út eftir að Halldór hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels 1955.
Pétur Már Ólafsson segir í formála 7. útgáfu Brekkukotsannáls 2005: ” […] sá Halldór Laxness sem sendi frá sér Brekkukotsannál á útmánuðum 1957 var annar Halldór en sá sem skrifaði Sjálfstætt fólk rúmum tveimur áratugum áður þótt segja megi að efnið sé svipað: íslenskur kotbóndi á fyrri hluta tuttugustu aldar og fjölskylda hans. Hann kemur aftur að gömlu yrkisefni en án þeirra pólitísku viðmiðana sem settu mark sitt á verk hans á 4. áratugnum.” [1] Þarna vísar Pétur til breyttra viðhorfa Halldórs til sovétsósíalismans, eftir að uppvíst varð um óheilindi Stalíns og síðar innrás Sovétmanna inn í Ungverjaland. Pétur segir ennfremur:
“Í síðari bókum sínum kemur Halldór aftur og aftur að því að eiginlega skiptir litlu máli fyrir líf okkar hér á jörð hvaða trúarlegar eða heimspekilegar formúlur við aðhyllumst. Það séu hinir mannlegu eiginleikar sem úrslitum ráði, hin mannlega reisn. Margar persónur bóka hans einkennast af þessu. Líf þeirra byggir á umburðarlyndi gagnvart náunganum og er algjörlega laust við hvers kyns ofstæki. Hvað sem á gengur birtir fólkið sína sérstæðu afstöðu með óbifanlegri rósemi, einungis með því að breyta eins og því er eðlilegt .” [2]
Pétur segir um Álfgrím: “Hann getur farið að dæmi Georgs Hanssonar [Garðars Hólm] og tekið við ávísun frá Gúðmúnsensbúð. Hann getur líka valið að hafa með sér arfleifðina úr Brekkukoti, bera virðingu fyrir menningu heimsins fyrir innan krosshliðið og gildum hans og taka með varúð því sem er fyrir utan það. Framtíð hans veltur á því hvorn kostinn hann kýs sér.” [3]
Sumarið sem Halldór varð sjötugur (1972) hófust tökur leikstjórans Rolfs Hädrichs á sjónvarpskvikmynd um Brekkukotsannál. Þetta verkefni var stærsta kvikmyndaverkefni sem ráðist hafði verið í á Íslandi á þessum tíma. Tökustaðir voru rúmlega tuttugu og mikil vinna var lögð í leikmyndir. Torfbær var reistur við tjörn í Gerðum í Garði og heil götumynd fyrir ofan Geldinganes í Gufunesi. Halldór lánaði standklukkuna sína góðu, sem stóð eitt sinn í Brekkukoti, Laxnesi og nú í anddyri Gljúfrasteins, sem leikmun. Hann lét ekki þar við sitja heldur lék aukahlutverk biskups í myndinni með “tilþrifum.” [4]
Við hlökkum til að heyra hvað Einar Kárason hefur til málanna að leggja. Verk mánaðarins er opinn leshringur sem Gljúfrasteinn stendur fyrir. Eitt verk eftir Halldór Laxness er tekið fyrir í hverjum mánuði sem fólk er hvatt til að lesa. Í lok hvers mánaðar er síðan upplagt að heimsækja Gljúfrastein og taka þátt í spjalli um verkið. Stofuspjallinu stýra ýmsir valinkunnir bókmenntamenn og konur.
Allir eru velkomnir í stofuspjallið. Aðgangseyrir er aðeins 500 krónur og það er síður en svo skylda að hafa nýlokið lestri á viðkomandi verki.
Heimildir:
[1][2][3] Pétur Már Ólafsson. 2005. Formáli að 7. úgáfu Brekkukotsannáls. Vaka Helgafell, Reykjavík. Bls. 5-11
[4] Halldór Guðmundsson. 2004. Halldór Laxness – Ævisaga. JPV Útgáfa, Reykjavík. Bls. 730-731 Gljúfrasteinn – hús skáldsins / Laxness museum P.O. Box 250 270 Mosfellsbæ ICELAND
Tengt efni
Er líða fer að jólum í Mosfellsbæ
Fjöldi viðburða verða í boði í Mosfellsbæ í aðdraganda jóla.
Syndum, landsátak í sundi hefst 1. nóvember 2024
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samstarfi við Sundsamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi frá 1. – 30. nóvember 2024.
Vel sóttur fundur um Álafosskvos