Mosfellsbær hefur ákveðið að efna til hugmyndasamkeppni um miðbæjargarð við Bjarkarholt.
Gerður verður samningur við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs um að halda utan um undirbúning og framkvæmd hugmyndasamkeppninnar.
Í deiliskipulagi fyrir miðbæ Mosfellsbæjar er gert ráð fyrir miðbæjargarði við Bjarkarholt. Svæðið er um hálfur hektari að stærð og tillaga um garðinn byggist meðal annars á áliti rýnihópa íbúa sem lögðu áherslu á græna ásýnd miðbæjarins.
Skipuð verður fimm manna dómnefnd þar sem verða tveir fulltrúar bæjarstjórnar, skipulagsfulltrúi Mosfellsbæjar auk tveggja fagaðila sem Miðstöð hönnunar og arkitektúrs tilnefnir. Helstu tímasetningar eru þannig að verkefnalýsing og kynningarefni verði tilbúið til auglýsingar 6. janúar 2022, samkeppnin verði auglýst opinberlega og kynningarfundur haldinn 10. janúar 2022, skilafrestur tillagna verði til miðnættis 21. mars 2022. Að þessu loknu taki við vinna dómnefndar og niðurstaða samkeppninnar verði kynnt sumardaginn fyrsta sem verður 21. apríl 2022
Lunga nýja miðbæjarins
„Ég bind miklar vonir við þessa hugmyndasamkeppni og sé fyrir mér að miðbæjargarðurinn geti orðið eins konar lunga nýja miðbæjarins þar sem íbúar geti notið fallegs umhverfis, gróðurs, veitinga og stundað einfaldari íþróttir með börnum, vinum og fjölskyldu,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar. „Miðbæjargarðurinn hefur alltaf verið hugsaður sem miðja svæðisins og mikilvægt er að nýta tækifærið til að þróa miðbæinn okkar saman sem stað þar sem við komum saman, njótum lífsins og sinnum heilsueflingu,“ segir Haraldur.
Tengt efni
Jólatréð fyrir Miðbæjartorg úr heimabyggð
Fjórða árið í röð er jólatréð fyrir Miðbæjartorg sótt í Hamrahlíðarskóg.
Nóg um að vera í Mosfellsbæ í sumar
Mosfellsbær efstur á lista yfir spennandi ferðamannastaði á Íslandi