Mosfellsbær og Eir – hjúkrunarheimili hafa gert með sér samning um að Eir annist rekstur dagdvalarinnar frá 1. febrúar 2015.
Rýmin þar eru níu og þeim er unnt að deila milli fleiri gesta sem nýta sér ákveðna daga vikunnar eða hluta úr degi.
Eldra fólk í Mosfellsbæ hefur frá árinu 2002 átt þess kost að taka þátt í starfsemi dagdvalar (áður nefnt dagvist). Með breytingum á húsnæði þjónustumiðstöðvarinnar í Eirhömrum árið 2012 var aðstaða starfseminnar bætt til muna. Möguleikar til þjálfunar, tómstundaiðju og fræðslu jukust með því umtalsvert.
Dagdvölin deilir húsnæðinu með félagsstarfi eldri borgara og Félagi aldraðra í Mosfellsbæ og nágrenni (FaMos). Með breytingunum má segja að bylting hafi orðið í framboði á félags- og tómstundastarfi og fjölda þátttakenda í starfinu. Þá er aðgengi að persónulegri þjónustu á borð við hársnyrtingu og þjónustu fótaaðgerðarfræðings mun betra en áður var. Auk þess að eiga möguleika á þátttöku í því starfi sem fram fer í húsinu er sérstök dagskrá fyrir gesti dagdvalarinnar.
Í dagdvölinni er í boði mat á heilsufari, þjálfun, tómstundaiðja, félagslegur stuðningur, fræðsla, ráðgjöf og aðstoð við athafnir daglegs lífs. Þar er einnig fylgst með andlegri og líkamlegri líðan og næringu. Fylgst er með komum í dagdvölina og boðið upp á ferðir milli dagdvalar og heimilis.
Markmiðið með starfseminni er að styðja þá sem þurfa að staðaldri eftirlit, umsjá og stuðning til þess að geta búið sem lengst í heimahúsi, við sem eðlilegastar aðstæður. Í því skyni er meðal annars lögð á það áhersla að efla hvern og einn til sjálfshjálpar.
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar og Sigurður Rúnar Sigurjónsson framkvæmdastjóri Eirar - hjúkrunarheimilis handsala samninginn.