Framundan eru breytingar á Akstursþjónustu fatlaðs fólks sem ekið hefur undir merkjum Strætó síðastliðin 5 ár.
Um mánaðamótin mun þjónustan verða aðskilin frá starfsemi Strætó og skipt verður um nafn, útlit og skipulag. Þjónustan mun bera heitið Pant akstur og mun sinna akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu, að undanskildum Kópavogi og Hafnarfjarðarbæ.
Markmiðið er að gera þjónustuna einfaldari, nútímalegri og betur sniðna að þörfum hvers notanda. Til að mynda verður ekki lengur takmarkaður ferðafjöldi á hvern einstakling og ákvæði sem skerða rétt á þjónustu, svo sem hjá þeim sem þiggja bílastyrk frá TR, verða felld úr gildi. Aksturstími verður einnig lengdur á stórhátíðardögum og verður héðan í frá ekið til kl. 22:00 á aðfangadegi og gamlársdegi og til kl. 24:00 á öðrum stórhátíðardögum. Sérstakt app er væntanlegt til notkunar í haust en það mun gera notendum kleift að panta ferðir og fylgjast með bílunum sínum í rauntíma.
Stefnt er að því að semja við Hópbíla um að sinna akstrinum næstu 5-7 árin. Stjórn Pant aksturs verður sett saman úr fulltrúum frá Reykjavíkurborg, Garðabæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi. Erlendur Pálsson verður sviðstjóri þjónustunnar.