Blikastaðakró-Leiruvogur var friðlýst sem friðland 16. september sl. þegar Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra undirritaði friðlýsinguna.
Frumkvæði að friðlýsingu svæðisins kom frá sveitarfélögunum tveimur sem svæðið nær yfir, Mosfellsbæ og Reykjavíkurborg, í samráði við Umhverfisstofnun, enda svæðið verið flokkað á náttúruminjaskrá til margra ára. Fulltrúar sveitarfélaganna og Umhverfisstofnunar stofnuðu starfshóp fagaðila sem vann þétt saman að því að ná þessu metnaðarfulla markmiði um friðlýsingu svæðisins.
Umhverfisnefnd Mosfellsbæjar og Tómas G. Gíslason, umhverfisstjóri, leiddu verkefnið fyrir hönd bæjarsins. „Þetta er stór áfangi í verndun þessa fallega svæðis sem er áningarstaður margra fuglategunda og býr yfir fjölbreyttu dýralífi“ segir Tómas.
Svæðið sem liggur innan Reykjavíkur og Mosfellsbæjar, er mikilvægur viðkomustaður farfugla, einkum vaðfugla. Svæðið fóstrar ríkulegt fuglalíf allt árið um kring, þar á meðal ábyrgðartegundir fugla. Svæðið er einnig viðkomustaður landsela.
Verndargildi svæðisins er hátt og felst ekki síst í grunnsævi, miklum sjávarfitjum og víðáttumiklum leirum. Leirurnar eru meðal fárra óraskaðra leira á höfuðborgarsvæðinu og geyma ríkulegt samfélag sjávarhryggleysingja. Auk þess að vera fuglum nauðsynlegar gegna leirur einnig mikilvægu hlutverki við að takmarka gróðurhúsaáhrif og önnur neikvæð áhrif loftslagsbreytinga en leirur binda gróðurhúsalofttegundir og er binding á flatareiningu mikil.
Friðlandið er 5,26 km2 að stærð. Hið nýja friðlýsta svæði við Leiruvog tengist þegar friðlýstu svæði við Varmárósa, austan við Leiruvog, sem hefur verið friðlýst frá árinu 1980 vegna fágætrar plöntu, fitjasefs, sem þar er að finna, auk þess sem svæðið er mikilvægt vistkerfi fyrir fugla.
Markmiðið með friðlýsingunni er að viðhalda og vernda til framtíðar þetta mikilvæga búsvæði fugla og sjávarhryggleysingja auk líffræðilega fjölbreytni þess þannig að það fái að þróast samkvæmt náttúrulegum lögmálum og á eigin forsendum.
Auk verndunar náttúru býður svæðið upp á tækifæri til útivistar og fræðslu. Til gamans má geta að um þessar mundir eiga hundruð eða þúsundir gæsa næturstað á leirunum við Leiruvog.
Í reglum um friðlandið er meðal annars kveðið á um að flug ómannaðra loftfara er óheimilt á varptíma og fartíma fugla, og að notkun vélknúinna vatnatækja s.s. sjókatta, sæþota o.þ.h. er óheimil. Umhverfisstofnun getur veitt leyfi til athafna í friðlandinu, s.s. til ljósmynda- og kvikmyndatöku í atvinnuskyni.
Umhverfisstofnun hefur umsjón með friðlandinu og ber ábyrgð á gerð stjórnunar- og verndaráætlunar í samvinnu við Reykjavíkurborg og Mosfellsbæ.
Kort af hinu friðlýsta svæði.