Bæjarfulltrúar í bæjarráði fóru í árlega heimsókn á stofnanir bæjarins í síðustu viku í tengslum við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2025.
Að þessu sinni voru það Hlaðhamrar, Helgafellsskóli, Reykjakot, Þjónustustöðin, Listaskólinn, Lágafellslaug og Dagþjónusta fatlaðra – Farsældartúni sem voru sótt heim og var tekið vel á móti fulltrúum bæjarráðs. Á fundunum gafst tækifæri til að ræða það sem betur má fara varðandi fjárfestingar og viðhald auk ýmissa annarra mála. Það hefur mætt töluvert á starfsemi Hlaðhamra vegna viðgerða en hluti skólans hefur verið lokaður vegna rakaskemmda. Þá sér fyrir endann á byggingu eldhúss í Reykjakoti og í Helgafellsskóla verður nýtt íþróttahús tekið í notkun í ársbyrjun 2025.
Bæjarstjóri og fulltrúar bæjarráðs notuðu tækifærið og færðu Dóru Guðrúnu Wild á Hlaðhömrum og Málfríði Bjarnadóttur í Helgafellsskóla blómvendi í tilefni tilnefninga þeirra til Íslensku menntaverðlaunanna 2024.