Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær, hafa gert með sér samkomulag um fyrirkomulag og rekstur sameiginlegrar ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu.
Samkomulagið felur í sér ákvörðun sveitarfélaganna um að vinna sameiginlega að framkvæmd þessarar þjónustu og að settar verði sameiginlegar reglur um þjónustuna í samræmi við ákvæði laga og reglna um málefni fatlaðs fólks. Þó getur hvert og eitt sveitarfélag sett sérstakar reglur svo fremi að þær brjóti ekki í bága við þær sameiginlegu.
Strætó bs. hefur verið falin daglega umsjón með framkvæmd ferðaþjónustunnar með rekstri þjónustuvers og útboði og umsjón með samningum við þá verktaka sem munu annast aksturinn. Strætó bs. mun hafa við það samvinnu við samráðshóp félagsmálastjóra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sem ber faglega og fjárhagslega ábyrgð á verkefninu.
Hér er um tímamótasamkomulag að ræða í þjónustu sveitarfélaganna við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu. Þjónustan eykst að því leyti að gerðar verða meiri kröfur til gæða bíla og búnaðar og tekinn verður í notkun nýr tölvubúnaður sem auðveldar notendum að panta ferðir. Með því kerfi verður jafnframt hægt að skipuleggja ferðir betur og auka nýtingu bílanna.
Síðast en ekki síst er miðað við að panta megi ferðir með tveggja tíma fyrirvara sem er mikil bót frá því fyrirkomulagi sem nú ríkir sem gerir almennt ráð fyrir að panta þurfi ferð deginum áður en hún skal farin. Þjónustan verður í boði á sama tíma og þjónusta strætisvagna.
Gert er ráð fyrir að hið nýja fyrirkomulag taki gildi um næstu áramót. Kópavogsbær mun þó ekki nýta sér aðgang að þjónustuverinu né akstri verktaka fyrst um sinn vegna núgildandi samnings sveitarfélagsins við við akstursaðila sem sér um þjónustuna í dag.
Samkomulagið var undirritað í Ráðhúsi Reykjavíkur mánudaginn 19. maí af borgarstjóra og bæjarstjórum hlutaðeigandi sveitarfélaga.
Á myndinni eru (f.v.): Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Jón Gnarr borgarstjóri, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar og Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness.