Mosfellsbær er stækkandi fjölskyldubær þar sem lagður er metnaður í að veita barnafjölskyldum góða þjónustu.
Við samþykkt fjárhagsáætlunar fyrir árið 2018 voru teknar ákvarðanir um aukna þjónustu í dagvistun barna.
Almennt leikskólagjald lækkaði um 5% þann 1. janúar 2018 og munu foreldrar greiða lægra gjald um næstu mánaðarmót.
Sama gjald – Mismunandi dagvistunarform
Á árinu 2017 samþykkti bæjarstjórn þá nýlundu að öll börn 18 mánaða og eldri greiddu leikskólagjald óháð vistunarformi. Á þessu ári verður bætt um betur og aldurinn færður niður í 13 mánaða og tekur gildi mánaðarmótin eftir að barnið nær aldri. Sama gjald er nú greitt hvort sem börn eru hjá dagforeldrum, í leikskólum í Mosfellsbæ eða í einkareknum leikskólum utan bæjarfélagsins.
Aukin þjónusta fyrir yngstu börnin
Á síðasta ári hefur fræðslu- og frístundasvið Mosfellsbæjar ásamt leikskólunum Huldubergi og Hlíð unnið að þróunarverkefni sem lítur að aukinni dagvistunarþjónustu við foreldra yngstu bæjarbúana. Stofnaðar voru ungbarnadeildir við ofangreinda leikskóla og hafa þær verið starfandi frá síðastliðnu hausti. Bæjarstjórn Mosfellsbæjar ákvað við samþykkt fjárhagsáætlunar fyrir árið 2018 að fjölga leikskólaplássum fyrir ung börn í Mosfellsbæ úr 28 í 48. Fræðslu- og frístundasvið hefur hafist handa við að úthluta þessum plássum sem verður að fullu lokið í maí nk.
Þegar ákvörðun bæjarstjórnar um fjölgun plássa lá fyrir hófst vinna við mótun faglegrar framtíðarsýn fyrir vistun ungra barna í Mosfellsbæ. Að þeirri stefnumörkun komu starfsmenn fræðslu- og frístundasviðs ásamt stjórnendum leikskóla. Skoðaðir voru tveir kostir, að setja á stofn ungbarnadeildir við alla leikskóla eða stofna sérstakan ungbarnaleikskóla sem sérhæfði sig í umönnun og kennslu ungra barna. Það var faglegt mat starfsmanna fræðslu- og frístundasviðs og leikskólastjórnenda að stofna sérstakan ungbarnaleikskóli en jafnframt að halda áfram með ungbarnadeildina í Huldubergi. Sú tillagan var samþykkt í bæjarstjórn að undangenginni umfjöllun í fræðslunefnd. Leikskólinn Hlíð varð fyrir valinu sem ungbarnaleikskóli og unnið verður aðlögun starfseminnar að nýju hlutverki á næstu misserum í samstarf við foreldra og starfsfólk.
Tengt efni
Breytingar á umsýslukerfi og vefsíðum leikskólanna
Dagur leikskólans 6. febrúar
Dagur leikskólans er í dag þriðjudaginn 6. febrúar.
Skráningardagar í leikskólum Mosfellsbæjar
Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti á fundi sínum fimmtudaginn 15. júní tillögu fræðslunefndar um svokallaða skráningardaga í leikskólum frá og með næsta hausti.