Ásbjörn Þorvarðarson eða Ási eins og flestir Mosfellingar þekkja hann, lauk störfum sem byggingarfulltrúi Mosfellsbæjar þann 27. apríl.
Hann hóf störf hjá Mosfellssveit í byrjun ágúst 1982 og gegndi því starfi byggingarfulltrúa í rétt tæplega 36 ár. Þegar hann hóf störf voru íbúar liðlega 2.000 en þeir nálgast nú 11.000.
Haldið var kveðjusamsæti í Listasal Mosfellsbæjar að því tilefni og tóku þar til máls auk hans þau Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri, Bryndís Haraldsdóttir, formaður skipulagsnefndar og Bjarki Bjarnason, forseti bæjarstjórnar og formaður umhverfisnefndar.
Ásbjörn þakkaði fyrir samstarfið og sagði að þessi ár hjá Mosfellsbæ hefðu verið góð og að lykillinn að árangri væri að hafa ávallt í huga að öll mál hafa á sér margar hliðar. Lausn verkefna á flóknu sviði, eins og byggingamálin geta verið, ráðist því af lausnamiðaðri nálgun, þekkingu á gildandi reglum og getunni til að þróa og útfæra farsæla niðurstöðu í sátt. Slíkt sé ávallt verkefni fleiri en eins einstaklings og hann hafi ávallt unnið með góðu fólki.
Mosfellsbær þakkar Ása fyrir farsæl og góð störf í þágu Mosfellinga og óskar honum og fjölskyldu hans alls hins besta.
Ásbjörn Þorvarðarson og Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri.