Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2022 var lagður fram á fundi bæjarráðs í dag, mánudaginn 3. apríl.
Rekstur ársins ber þess merki að verðbólga fór hækkandi með tilheyrandi áhrifum á verðbætur lána. Rekstrarniðurstaðan var neikvæð um 898 milljónir og vega þar þyngst verðbætur sem voru 808 m.kr umfram áætlun.
Tekjur ársins námu alls 16.446 milljónum, launakostnaður 8.062 milljónum, hækkun lífeyrisskuldbindinga 244 milljónum og annar rekstrarkostnaður var 6.724 milljónir og nemur framlegð því 1.416 milljónum. Afskriftir voru 597 milljónir og nam rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði 819 milljónum. Fjármunatekjur, fjármagnsgjöld og tekjuskattur námu 1.718 milljónum og var rekstrarniðurstaða ársins því neikvæð um 898 milljónir. Veltufé frá rekstri var 1.233 milljónir eða 7,5% af tekjum.
Rekstur málaflokka gekk vel og var í góðu samræmi við fjárhagsáætlun. Árið einkenndist af miklum framkvæmdum bæði til þess að geta tekið við fjölgun íbúa og til að byggja frekar upp innviði sveitarfélagsins. Helstu framkvæmdir voru við gatnaframkvæmdir, endurbætur Kvíslarskóla auk byggingar íþróttahúss í Helgafellshverfi. Þá voru framkvæmdir við ýmsar stofnanir bæjarins, sér í lagi leik- og grunnskóla og við íþróttamannvirki.
Heimsfaraldurinn setti svip sinn á rekstur sveitarfélagsins í upphafi ársins. Allt árið einkenndist af ört hækkandi verðbólgu sem leiddi til aukins rekstrarkostnaðar og aukins kostnaðar vegna verðbóta af langtímalánum. Kostnaður vegna verðbóta nam 1.352 milljónum eða 808 milljónum meira en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun.
Eigið fé í árslok nam 6.765 milljónum og eiginfjárhlutfallið er 23,5%. Skuldaviðmið er 104,4% og er því vel innan þess 150% hámarks sem kveðið er á um í lögum.
Íbúar Mosfellsbæjar voru 13.470 þann 1. desember 2022 og fjölgaði um 384 eða 2,9% frá fyrra ári. Mosfellsbær er sem fyrr sjöunda fjölmennasta sveitarfélag landsins og þar störfuðu 848 starfsmenn í 712 stöðugildum í árslok 2022.
Fræðslu- og uppeldismál eru umfangsmesti málaflokkurinn og til hans var varið 7.320 milljónum eða 54,8% skatttekna. Til félagsþjónustu var veitt 2.843 milljónum eða 21,3% skatttekna og eru þar með talin framlög vegna málefna fatlaðs fólks. Loks eru íþrótta- og tómstundarmál þriðja umfangsmesta verkefni bæjarins og til þeirra var ráðstafað um 1.458 milljónum eða 10,9% skatttekna.
Ársreikningurinn verður tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn þann 12. apríl 2023 og gert er ráð fyrir því að seinni umræða í bæjarstjórn fari fram þann 26. apríl.
„Við horfum fram á bjarta tíma hér í Mosfellsbæ en óneitanlega hefur verðbólgan haft mjög neikvæð áhrif á kostnað við fjárfestingar og við þurfum að taka mið af því. Fjárhagurinn er þrátt fyrir það traustur og framundan er mikil uppbygging í nýjum hverfum, svo sem í 5. áfanga í Helgafellshverfinu og miðsvæðis í bænum auk nýs atvinnusvæðis í landi Blikastaða.“ segir Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Tengt efni
Áætlaður rekstrarafgangur 702 milljónir á árinu 2025
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 endurspeglar hátt fjárfestingarstig og forgangsröðun í þágu barna og unglinga.
Hátt fjárfestingarstig í Mosfellsbæ og forgangsröðun í þágu barna og unglinga
Áætlaður rekstrarafgangur er 716 milljónir króna árið 2025.
341 milljón króna afgangur af rekstri Mosfellsbæjar
Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2023 var lagður fram á fundi bæjarráðs í dag, mánudaginn 15. apríl 2024. Rekstrarniðurstaðan er jákvæð um 341 milljón.