Bæjarhátíðin Í túninu heima var formlega sett á hátíðardagskrá í félagsheimilinu Hlégarði í Mosfellsbæ í gær.
Við það tækifæri voru jafnframt veittar umhverfisviðurkenningar og útnefning bæjarlistamanns fór fram. Að þessu sinni varð leirlistakonan Þóra Sigurþórsdóttir fyrir valinu.
Rík hefð hefur skapast fyrir hátíðinni og eru það íbúarnir sjálfir sem skapa stemminguna og hátíðina sjálfa með því meðal annars að bjóða heim í garðana sína, standa fyrir götugrillum og skipuleggja viðburði.
Þekktir dagskrárliðir bæjarhátíðarinnar eru á sínum stað, Ullarpartý og markaðsstemming í Álafosskvos, flugvéla- og fornbílasýning á Tungubökkum, kjúklingafestival, götugrill og Pallaball í félagsheimilinu Hlégarði.
Hápunktur hátíðarinnar er á laugardagskvöld þegar stórtónleikar fara fram á Miðbæjartorgi. Á tónleikunum stíga á svið GDRN, Húbba Búbba, Gildran, Hr. Eydís ásamt Ernu Hrönn, Páll Óskar og Patrik. Tónleikarnir eru fjölskylduskemmtun og leggja skipuleggjendur áherslu á að gestir skemmti sér vel og öryggi sé í forgangi.
Á hátíðinni fer saman menning og áhersla á hreyfingu enda er Mosfellsbær sannkallaður útivistarbær. Hátíðin hefur stækkað á síðustu árum og því er mikilvægt að huga vel að öryggi gesta og því hefur gæsla við hátíðina verið aukin. Samstarf lögreglu, starfsfólks félagsmiðstöðva, barnaverndar og annarra sem að gæslu koma er ætlað að halda vel utan um hátíðina þannig að öll komist heil heim.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri hvetur foreldra til að fylgjast vel með börnum sínum: „Við leggjum áherslu á að viðburðir Í túninu heima eru ætlaðir allri fjölskyldunni og hvetjum til samveru foreldra og barna. Mikilvægt er að reglum um útivistartíma sé fylgt en þær kveða á um að börn 12 ára og yngri megi vera úti til kl. 22 á kvöldin og unglingar 13 til 16 ára til miðnættis. Börn mega ekki vera á almannafæri utan fyrrgreinds tíma nema í fylgd með fullorðnum.“
Upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar má finna á: mos.is/dagskra